Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 19:51:30 (12626)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel einsýnt að sjómenn ákveði sjálfir að taka þátt í þessum samstöðufundi. Við vitum það auðvitað öll sem erum hér inni, held ég hljóti að vera, að afkoma útgerðarinnar á viðkomandi tíma endurspeglast í því hvað í raun og veru útgerðin getur greitt til sjómanna, þó að ég geri mér grein fyrir því að þegar menn taka veiðigjöldin ætli þeir að taka launin til hliðar áður en þeir reikna svokallaða auðlindarentu. Þá verðum við að hafa í huga að á árunum 2012–2013 á að greiða fasta krónutölu í auðlindagjald eða svokölluð veiðigjöld.

Ég held líka, án þess að ég ætli að fullyrða neitt um það, að sjómenn séu að minna á og verja starfsumhverfi sitt. Þá komum við aftur að því sem var verið að ræða hér á undan að sú öfgafulla umræða sem hefur verið í áratugi af öllum hlutaðeigandi aðilum, (Forseti hringir.) hvort sem það eru hagsmunaaðilar eða stjórnmálaöfl, hefur skaðað ímynd greinarinnar.