Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 19:55:16 (12629)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Nú er ljóst að þeir sem reka útgerðarfélög, hvort sem þau eru lítil eða stór, og starfsfólk þeirra standa saman og hafa mótmælt því að hér séu lögð fram mál sem ógna atvinnuöryggi þeirra. Ekki nóg með það heldur eiga margir aðrir býsna mikið undir þessari atvinnugrein. Þegar við nokkrir þingmenn löbbuðum niður á bryggju í dag sáum við þar fjöldann allan af bílum merktum hinum og þessum fyrirtækjum sem voru að þjónusta skipin í höfninni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann kannist við að reynt hafi verið að meta það hvaða áhrif þessi vondu frumvörp hafi á fyrirtæki sem þjónusta þau skip og þær útgerðir sem um ræðir. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir heildarmyndinni þegar farið er af stað í æfingar sem þessar.