Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 19:56:28 (12630)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þurfi svo sem ekkert annað en að lesa umsagnir frá sveitarfélögunum þar sem menn vara við þeim áhrifum sem frumvörpin hafa á þau samfélög. Auðvitað smitast þetta um allar lífæðar, hvort sem er á landsbyggðinni eða Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það hefur komið fram að stærsti hluti þeirra fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn er á höfuðborgarsvæðinu. Allir sem vilja vita og vilja viðurkenna vita að ef svo háar upphæðir eru teknar út úr greininni kemur það auðvitað niður á henni með þeim hætti að ekki verður fjárfest meira, fjármagn verður ekki nýtt í frekari uppbyggingu, markaðsstarf eða hvaðeina sem menn finna upp á.

Áhyggjur margra í sjávarbyggðunum snúa að því að þessi fyrirtæki eru burðarásinn í samfélögunum, það þekkjum við hv. þingmaður vel. Þau styðja við íþróttafélög, björgunarsveitir og líknarfélög. Það gefur því augaleið að þetta mun hafa áhrif á þau samfélög, að vísu miklu (Forseti hringir.) meira en önnur sem treysta minna á sjávarútveg.