Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 20:05:01 (12637)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það væri æskilegt ef gjaldið væri þróað þannig að það legðist nákvæmar á einstakar tegundir. Einmitt þess vegna er varlega af stað farið en ekki bratt eins og hv. þingmaður sagði. Nú þekkir hv. þingmaður einkar vel til útgerðar og ég vil þess vegna spyrja hann hvort hann telji að fast gjald upp á 9,50 kr. fyrir þorskígildiskíló og breytilegt gjald í þessu árferði sem bætir við kannski rúmlega 20 kr. á hvert kíló, verði til þess að einhver útgerðarmaður muni setja það fyrir sig eða kjósa að veiða ekki upp á þau býti. Sömuleiðis ef einhverjir standa ekki undir þeim gjöldum, hvort hv. þingmaður telji að það verði skortur á nýjum aðilum sem væru tilbúnir til þess að greiða fyrir þær veiðiheimildir sem hér er gert ráð fyrir. Og loks hvað hv. þingmaður telur að yrði boðið í þessar heimildir ef þær væru (Forseti hringir.) boðnar á almennum markaði. Eru það 100 kr. eða 150 kr. eða 300 kr.? (Forseti hringir.) Um það bil hvaða stærð telur þingmaðurinn að þar væri um að ræða?