Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 20:08:38 (12640)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri það enn og aftur að við hv. þm. Helgi Hjörvar erum sammála um það hversu mikilvægt er að hafa hagræðið og hagkvæmnina í greininni til þess að hún geti staðið undir þeim auðlindagjöldum sem henni er ætlað að greiða á hverjum tíma. Það gefur augaleið að eftir því sem hagkvæmnin er meiri í greininni getur hún borgað meira í auðlindagjöld eða það sem ég vil kalla landsbyggðarskatt.

Hv. þingmaður nefnir í þessu sambandi makrílinn. Þá verðum við líka að átta okkur á því að það er kannski ekki alveg sanngjarnt að setja þetta upp þannig því að á þeim tíma voru ákveðin skip að veiða makrílinn og þau fá núna 70% viðmiðun út á það sem þau veiddu. Ég hef hins vegar sagt það oftar en einu sinni, oftar en tvisvar og oftar en þrisvar og get sagt það einu sinni enn, að það voru gerð stór mistök þegar menn voru að búa til viðmiðunina en þá var verið að veiða makrílinn í gúanó. Ég tók einmitt undir ákvæði í svokölluðu skötuselsfrumvarpi um að setja inn ákveðna veiðiskyldu af því að við vorum að sóa verðmætum (Forseti hringir.) og það megum við ekki gera.