Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 20:10:45 (12641)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil gera athugasemd við fundarstjórn frú forseta. Í 4. mgr. 10. gr. þingskapa segir um lengd þingfunda, með leyfi forseta:

„Reglulegir þingfundir samkvæmt starfsáætlun skulu ekki standa lengur en til klukkan 8 síðdegis. Frá því má þó víkja ef þingflokkar ná samkomulagi þar um eða ef þingið samþykkir, sbr. 74. gr. Tillögu um lengri fundartíma getur forseti borið upp án nokkurs fyrirvara.“

Eins og hæstv. forseti veit var slík tillaga ekki borin upp, ekkert samkomulag var um lengri þingfund og ætti hæstv. forseta að vera kunnugt um það líka. Þess vegna er það alveg klárt að hæstv. forseti er að brjóta þingsköp og geri ég athugasemd við það. Ég vil einnig að það sé skýrt að hæstv. forseta mátti vera það ljóst að hætta væri á því að farið yrði fram yfir reglulegan fundartíma þar sem iðulega er gert (Forseti hringir.) ráð fyrir andsvörum og þetta er regla sem mér skilst á starfsfólki þingsins að sé mjög vel farið eftir.