Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 11:12:58 (13026)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt er að hafa í huga að eðlilegt er að það sé töluvert meira af útgjöldum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að margar af stærstu stofnunum ríkisins eru hér, það er rétt að hafa í huga. En um leið er líka ástæða til að horfa til þess að byggðirnar víðs vegar um landið hafa átt undir högg að sækja. Og það sem einhvers konar byggðaaðgerð að leggja þungar klyfjar á meginatvinnugrein landsbyggðarinnar á þeirri forsendu að menn ætli síðan að styrkja byggðirnar með endurdreifingu gjaldsins er auðvitað algjörlega út í hött, virðulegi forseti.

Miklu eðlilegra er að við reynum að búa til starfsumhverfi í kringum sjávarútveginn sem gerir honum kleift að hámarka fyrir þjóðina alla þegar upp er staðið arðinn af þeirri miklu auðlind sem er í hafinu í kringum Ísland. Það er okkar verkefni, um það eigum við að vera að ræða. Það er ærið verkefni, virðulegi forseti, að leysa.