Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 11:14:04 (13027)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Ég hefði áhuga á því að halda áfram að ræða sama efni og kom fram í fyrsta andsvari sem varðar áhrif frumvarpsins á landsbyggðina. Í áðurnefndri skýrslu sem Vífill Karlsson hefur unnið kemur fram að nánast önnur hver skattkróna sem er innheimt á landsbyggðinni af hinu opinbera er ráðstafað á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrirlestri sem Vífill Karlsson hélt á Vestfjörðum um byggðaþróun og fjármagnsflutninga þá benti hann á að áhrifin væru álíka og ef önnur hver króna af tekjum ríkisins færi til greiðslu á erlendum skuldum. Það mundi gera um 250 milljarða kr. á ári. Við getum rétt ímyndað okkur hvers konar áhrif það mundi hafa fyrir hagkerfið í heildina. Hann bendir á að þetta væri mjög alvarlegt fyrir staðbundin hagkerfi eins og Ísland og Vestfirði.

Það sem ég mundi vilja spyrja hv. þingmann um eru þær áhyggjur til viðbótar þessu sem koma fram í umsögn Sjómannasambands Íslands en í henni er bent á að útgerðarmenn muni leita allra leiða til að velta byrðinni af sérstaka veiðigjaldinu yfir á sjómenn með tilheyrandi tekjuskerðingu. Hvaða áhrif mun það hafa til viðbótar á sveitarfélögin sem fá meginþorra tekna sinna í gegnum útsvar?