Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 11:46:39 (13041)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðuna. Það sem ég mundi vilja spyrja hv. þingmann sérstaklega út í er, svo ég noti bara orð þingmannsins, þessi makalausu ummæli sem hafa komið frá stjórnarliðum, t.d. þingmönnum Norðvesturkjördæmis, sem hafa talað um hvernig landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu hafi verið stillt upp hvoru á móti öðru. Það sem mér finnst svo makalaust við þetta er að ástæðan er fyrst og fremst þetta frumvarp frá ríkisstjórninni. Hún hefur frumkvæði að þessu frumvarpi og síðan virðist hún alveg hlessa á því að fólk bregðist við.

Þegar ég skoða fyrirlestur sem Vífill Karlsson hélt 30. apríl 2011 á Ísafirði um byggðaþróun og fjármagnsflutninga finnst mér einkar áhugavert að sjá að hann staðfestir að það sem kannski hefur skipt hvað mestu máli þrátt fyrir allt til að styðja við landsbyggðina hafa verið þættir sem hv. þingmaður átti mjög mikið frumkvæði að og varða uppbyggingu menntunar hringinn í kringum landið. Þar nefni ég stuðning þingmannsins við Háskólann á Akureyri, háskólann í Borgarfirðinum, á Hólum og ekki hvað síst fjar- og dreifnámið. Þess vegna finnst mér alveg sláandi þegar hann bendir síðan á hvað leiðin hefur verið óhagstæð fyrir landsbyggðina út frá byggðaþróun. Þá eru ákveðnir hlutir sem hægt er að gera til að slá á þenslu. Allar aðgerðir stjórnvalda gagnvart landsbyggðinni virðast ganga fyrst og fremst út á það að slá á þenslu sem virðist ekki vera til staðar í þessum byggðum.

Ég hefði mikinn áhuga á að heyra frá hv. þingmanni (Forseti hringir.) hvað hægt væri að gera til að breyta þessu frumvarpi (Forseti hringir.) þannig að það væri hægt að koma í veg fyrir að það hefði þessi ógnvænlegu áhrif á landsbyggðina sem umsagnaraðilar tala um.