Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 11:49:07 (13042)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir hitti naglann á höfuðið í því hver er að etja landsbyggðinni og þéttbýlinu saman, enginn annar en ríkisstjórnin sjálf. Með framlagningu þessa frumvarps er hún að því. Ég hef hins vegar reynt að draga fram að þetta er hrikaleg skattlagning á landsbyggðina sem ég tel mikilvægt að við á suðvesturhorninu horfumst í augu við. Þetta er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar og hann er í ríkari mæli úti á landi. 80–90% af útgerðinni eru á landsbyggðinni. Við verðum að berjast fyrir því, hvort sem við erum á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni, að þetta ranglæti verði ekki knúið í gegn. Á móti kemur, hef ég líka dregið fram, að vegna þeirrar hagkvæmni sem við höfum upplifað í íslenskum sjávarútvegi í fjárfestingargetu hans hefur hann fjárfest í ýmsum sprotafyrirtækjum, nýsköpunarfyrirtækjum, sem ekki síst eru á höfuðborgarsvæðinu. Þetta frumvarp er líka ógnun við tilvist þeirra fyrirtækja og þess vegna finnst mér svo sorglegt að sjá áhugaleysi forustumanna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst í Hafnarfirði og Reykjavík, gagnvart þessu máli og að þeir átti sig ekki á hvaða þýðingu svona gríðarleg skattlagning hefur á allt landið.

Ég undirstrika að uppbygging framhaldsdeilda sem ég held að hafi verið mikilvæg á sínum tíma varð ekki síst vegna þess að það var góð samvinna við alla stjórnmálaflokka, ekki síst Framsóknarflokkinn, þar sem við sáum hag okkar í því að reyna að tryggja grunninn heima í héraði. Eitt gott dæmi um hvernig við fórum af stað, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem ég vil nefna er framhaldsskólinn í Grundarfirði. Stofnun hans varð til þess að börnin urðu eftir heima í héraði, það varð meiri sköpun, fólkið varð frekar eftir til að vinna og stuðla að uppbyggingu samfélagsins og styrkja innviðina. (Forseti hringir.) Þetta gátum við svo sannarlega gert í sameiningu. Það eru raunhæfar umbætur fyrir landsbyggðina að fara menntaveginn, fara rannsókna- og vísindaveginn í stað þess (Forseti hringir.) að fara skattlagningarleiðina eins og ríkisstjórnin er að gera í dag.