Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 11:56:19 (13045)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umræðunni að í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er komið inn á forsendur um gengi krónunnar til framtíðar. Ég hef áhuga á að herra forseti geri hæstv. fjármálaráðherra viðvart um að hennar nærveru sé óskað þar sem ég mun vilja spyrja hana út í þessar forsendur sem ég ætla að fara yfir á eftir. Herra forseti á að gera hæstv. ráðherra viðvart um að ég vilji að hún verði við ræðu mína.

(Forseti (SIJ): Hæstv. forseti mun ítreka þá beiðni sem fram kom um það fyrr í morgun.)

Ég mundi gjarnan vilja fá að gera hlé á ræðu minni þangað til hæstv. ráðherra verður við þessa umræðu vegna þess að það er algert lykilatriði sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í.

(Forseti (SIJ): Það er verið að kanna hvort hæstv. fjármálaráðherra sé í húsi.)

Ég bið líka herra forseta um að gera hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur grein fyrir því að ég óski eftir því að hún verði viðstödd þessa ræðu mína þar sem ég ætla að fara yfir málflutning hennar og þá kannski rökstuðning hennar fyrir málinu.

(Forseti (SIJ): Forseti mun jafnframt ítreka þá beiðni sem fram kom í morgun frá hv. þingmanni og þar sem verið er að kanna málið biður forseti þingmanninn um að halda ræðu sinni áfram um stund. Forseti mun síðan upplýsa hvort hægt verði að verða við beiðni þingmannsins.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir það. Það er algerlega óásættanlegt að við þurfum að standa í ræðupúlti Alþingis og leggja fram fyrirspurnir til hæstv. ráðherra og þeirra þingmanna sem standa að meirihlutaáliti í atvinnuveganefnd og fá engin svör við þeim fyrirspurnum sem við höfum lagt fram. Ég ætla þá að geyma þessa tvo hluta af ræðu minni í þeirri veiku von að hæstv. ráðherra og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir verði við ræðu mína.

Við erum að ræða um gríðarlega hagsmuni sem snerta þúsundir einstaklinga. Það hefur komið fram að um 35 þús. einstaklingar hafi afkomu sína beint eða óbeint af sjávarútvegi. Þess vegna er ljóst að við erum að tala hér um almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni eins og sumir þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa dylgjað um að við þingmenn vinnum að. Þegar við heyrum það og sjáum í umsögnum að verði þetta frumvarp að lögum séu verulegar líkur á því að þessir 35 þús. einstaklingar muni lækka í launum, sjómenn og fiskverkafólk, er einfaldlega mjög eðlilegt að við ræðum þessi mál ítarlega og könnum hvort við getum ekki náð fram einhverjum breytingum til batnaðar. Að mínu viti er veiðigjaldið eins og það er lagt fram of hátt og að mínu viti er um landsbyggðarskatt að ræða þar sem fjármunirnir skila sér ekki í nægjanlegum mæli til sjávarbyggðanna eins og fyrirliggjandi frumvarp bendir til. Mig langar að spyrja hv. þingmann sem sýnir þinginu þó þá virðingu að sitja í þingsal, hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur, hvort hún telji það ásættanlegt að veiðigjaldið fari í eins litlum mæli aftur til sjávarbyggðanna og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Hér er verið að ræða um 15 milljarða kr. skattlagningu á hinar dreifðu byggðir. Ef við horfum á stöðuna eins og hún er í dag eru 75% af opinberu fjármagni sett til höfuðborgarinnar en 42% er aflað af hálfu höfuðborgarinnar. Landsbyggðin greiðir í dag hlutfallslega miklu hærri fjármuni inn í ríkissjóð en varið er til baka. Nú á að auka þennan ójöfnuð enn frekar með því að skattleggja sérstaklega undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar sem 35 þús. einstaklingar hafa beina eða óbeina atvinnu af. Það er þess vegna mikilvægt að þeir aðilar sem bera ábyrgð á því að hafa lagt þetta frumvarp fram sýni okkur í það minnsta og því fólki sem starfar við íslenskan sjávarútveg þá virðingu að svara þeim spurningum sem við leggjum fram. Það er ekki að ástæðulausu sem við köllum eftir svörum vegna þess að allar umsagnirnar um þetta frumvarp nema ein eru neikvæðar. Fyrir utan Samfylkingarfélagið í Reykjanesbæ eru allir — ég veit reyndar ekki hvaða sérþekkingu Samfylkingarfélagið í Reykjanesbæ hefur á þessu frumvarpi — sérfræðingar sem hafa veitt umsögn um þetta frumvarp algerlega á móti því. En það er alveg ótrúleg tilviljun að það skuli þá fyrirfinnast 32 einstaklingar á Alþingi Íslendinga sem hafa ekkert við þetta að athuga og ætla að samþykkja frumvarpið umyrðalaust, koma ekki einu sinni hingað í ræðu til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. (Gripið fram í: Hneyksli.) Það er einfaldlega ekki hægt að bjóða fólki upp á það og þeim sjómönnum sem komu siglandi á Austurvöll til að mótmæla þessu framferði ríkisstjórnarinnar. Það væri hægt að halda margar ræður um það hvernig ríkisstjórninni hefur gengið að fara með skuldamál heimilanna, uppbyggingu í atvinnulífi eða aðra þætti, Icesave-málið og fleira mætti nefna, þetta er ein hrakfallasaga. Nú á að kóróna árangurinn með því að vega að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Ég ætla ekki að kveinka mér undan því að eiga í málefnalegri umræðu um þetta mál.

Nú kemur hæstv. fjármálaráðherra ekki í salinn eins og ég bað um. Ég óskaði eftir því að hún kæmi hingað til umræðunnar vegna þess að í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið er gert ráð fyrir því að gengi íslensku krónunnar verði veikt næstu árin, eins veikt og það er í dag, í sögulegu lágmarki. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé komin í salinn og mig langar þess vegna að spyrja hana hvernig standi á því að ráðuneyti hennar gerir ráð fyrir því að gengi krónunnar verði eins lágt og raun ber vitni á næstu árum. Það er rökstuðningurinn um rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra segir hins vegar að gengið eigi eftir að styrkjast á næstu árum og eigi mikið inni.

Þessi ríkisstjórn er komin í mótsögn við sjálfa sig í þessu máli (ÓN: Enn og aftur.) enn eina ferðina. Látum vera þetta sundurlyndi sem er innan beggja ríkisstjórnarflokkanna en það er ótækt að ábyrg stjórnvöld leggi fram frumvarp þar sem gert er ráð fyrir því að gengi krónunnar verði áfram í sögulegu lágmarki sem þýðir að lífskjör hér á landi munu ekki batna og í hinu orðinu er svo talað um að krónan eigi mikið inni og eigi eftir að styrkjast. Það er enginn trúverðugleiki af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að málflutningi í efnahagsmálum. Þess vegna þarf hæstv. ráðherra að kveðja sér hljóðs og fara yfir þennan lið málsins sem er undirstaða rekstrargrundvallar sjávarútvegsins til lengri tíma litið.

Er það framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar að gengi krónunnar haldist áfram í sögulegu lágmarki eða er það framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar að krónan muni styrkjast og þar með staða heimilanna og atvinnulífsins í landinu? Hver er stefnan? Eru stefnurnar kannski orðnar tvær (Gripið fram í.) eftir því hvað hentar hverju sinni? Það er einfaldlega ekki hægt að bjóða okkur upp á þetta.

Síðan langaði mig að fá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur til umræðunnar vegna orða hennar um íslenskan sjávarútveg þar sem hún fullyrti að lítil sem engin nýfjárfesting hefði átt sér stað í sjávarútvegi á undanförnum árum. Ég er hér með viðtal við Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson sem segir hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fara með fleipur þegar kemur að því og þess vegna væri mikilvægt að fá að spyrja hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur út í það hvernig hún ætlar að rökstyðja sitt mál þegar kemur að fjárfestingu í sjávarútvegi á árunum 2001–2009, þ.e. á árunum fyrir hrun. Þá var heilmikil fjárfesting í sjávarútveginum en síðan þessi ríkisstjórn tók við hefur einfaldlega óvissunni verið viðhaldið í rúm þrjú ár um framtíðarrekstrarumhverfið hjá undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar.

Það er miður að tími minn skuli vera búinn og að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir skuli ekki hafa komið til þessarar umræðu til að svara fyrirspurnum mínum. Hún er meðal þeirra þingmanna á meirihlutaáliti atvinnuveganefndar sem við ræðum hér. Ég kvartaði undan því, ég hefði viljað vera austur á fjörðum að opna nýja verksmiðju Alcoa sem mun skapa tugi starfa í Fjarðabyggð. Það er gleðiefni en það er ekki beint gleðiefni að standa í ræðustól Alþingis og kalla eftir þingmönnum stjórnarmeirihlutans, kalla eftir svörum og þurfa að gera það í skipti eftir skipti. Svörin eru því miður engin, herra forseti.