Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 12:25:52 (13055)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:25]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Árni Johnsen hafi orðað það svo aðfaranótt föstudags að hvesst hafi hér í salnum og það er vægt til orða tekið. Hins vegar hafði hv. þm. Björn Valur Gíslason manndóm til þess að biðjast afsökunar á orðum sínum og þeim brigslum sem hann bar þingmann í þingsal við það tækifæri. Hið sama verður því miður ekki sagt um hv. þm. Árna Johnsen sem í ræðu bar hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og hennar ættmenni lífs og liðin þungum brigslum í þeim tilgangi að því er virðist að gera baráttu hennar fyrir réttlátu fiskveiðistjórnarkerfi tortryggilega. Ég tel að þau orð hafi verið vítaverð í samræmi við hugsun 87. gr. þingskapa og skora á þingflokk Sjálfstæðisflokksins að taka á þessu máli og tryggja að þingmaðurinn dragi orð sín til baka og biðji hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur afsökunar á orðum sínum.