Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 12:28:33 (13057)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í fyrstu ræðu minni fór ég í gegnum stefnu Framsóknarflokksins hvað varðar þetta mál og grundvallarstefnu okkar sem endurspeglast einmitt í sjávarútvegsstefnunni og síðan hugsjónir mínar sem samvinnumanns.

Í þessari ræðu hefði ég áhuga á að ræða fyrst og fremst um það í sjávarútvegsstefnunni sem varðar afstöðu okkar framsóknarmanna til veiðigjaldsins, og þar eru þrjú lykilatriði.

Í fyrsta lagi að auðlindin sé sameign þjóðarinnar. Í öðru lagi að sjávarútvegurinn skuli greiða hóflegt veiðigjald sem skal tengt afkomu greinarinnar. Þriðja atriðið hefur alltaf frá því ég man eftir mér og hóf að starfa fyrir Framsóknarflokkinn verið lykilatriði í umræðu um veiðigjaldið og það er að það skiptist á ákveðinn máta milli ríkisins, sveitarfélaga eða landshlutasamtaka og síðan til að efla nýsköpun og fjölga störfum í greininni sjálfri.

Þriðja atriðið skortir að mínu mati fullkomlega í þessu frumvarpi. Hins vegar var í því frumvarpi sem var samþykkt af ríkisstjórn og lagt fram af hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóni Bjarnasyni, ákvæði, þá 28. gr. þess frumvarps, þar sem lagt var til að 50% færu til ríkisins þannig að það gæti þá raunar tryggt það að framlagið færi til sveitarfélaga eða þeirra landshluta sem væru ekki með aflaheimildir eða sjávarútvegsfyrirtæki. Síðan færi hluti, að mig minnir 30%, til sveitarfélaga og landshlutasamtaka samkvæmt ákveðinni formúlu sem kom fram í greininni og svo færi 20% hluti til eflingar nýrra starfa og nýsköpunar í sjávarútveginum.

Nú hefur hv. þm. Jón Bjarnason ásamt hv. þm. Atla Gíslasyni lagt fram breytingartillögu. Ég hef saknað þess mjög sárlega að heyra ekki meira frá hv. stjórnarliðum um afstöðu þeirra til þeirrar breytingartillögu í ljósi þess að ríkisstjórn á síðasta löggjafarþingi hafi verið tilbúin til að samþykkja þá grein og leggja hana fram. Ég hef líka bent á, meðal annars í umræðu á mjög umdeildum og þekktum vef hv. þm. Björns Vals Gíslasonar sem vill oft koma hingað upp í umræðunni, að ég hefði talið að þessi 28. gr. ætti að vera fullkomlega í samræmi við þá stefnu sem kemur fram, ekki bara í stefnuályktunum Vinstri grænna heldur líka í áherslum sem koma fram í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna um mikilvægi þess að styðja við byggðir landsins. Í ljósi þessa og þeirra áhyggna sem ég hef af því hver áhrifin verða á byggðina hringinn í kringum landið, ef þetta frumvarp verður samþykkt með þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn hefur þó lagt til, vil ég fara í gegnum þær umsagnir sem komu um þetta frumvarp og tengja þær við nýlega skýrslu frá Byggðastofnun sem kom út um mánaðamótin maí/júní sem heitir Samfélag, atvinnulíf og íbúaþróun í byggðarlögum með langvarandi fólksfækkun. Skýrslan skoðar sérstaklega svæði þar sem íbúum fækkaði um 15% eða meira á 15 ára tímabili árin 1994–2009 eða alls 30 sveitarfélög. Meginsvæðin sem voru skoðuð eru norðvestur-, norðaustur- og suðausturhorn landsins auk Dalabyggðar og Vestmannaeyjabæjar.

Þegar ég bar saman þau sveitarfélög sem talin eru upp í skýrslunni og þau sveitarfélög sem skiluðu inn umsögnum þá eru margar frá þeim byggðum sem voru til umfjöllunar í skýrslunni. Ég ætla að fara aðeins í gegnum hvað kjörnir fulltrúar þeirra sveitarfélaga segja um áhrifin af frumvarpinu á þau. Síðan vil ég taka fram, af því að öll þessi sveitarfélög hafa ekki skilað inn umsögnum, að þó nokkuð af þeim voru þátttakendur í auglýsingum sem birtust nýlega þar sem um 130 sveitarstjórnarmenn lýstu yfir áhyggjum sínum af frumvarpinu.

En ég ætla að byrja á að ræða um Bolungarvík, það er við hæfi held ég. Við erum ekki að tala algilt um 15% fækkun því að í sumum af þessum sveitarfélögum, t.d. á Vestfjörðum af því að við erum að byrja á Bolungarvík, er talað um að á þéttbýlisstöðunum þar hafi fólksfækkunin orðið 40% á Hnífsdal og á Flateyri, en 16% á Ísafirði og Suðureyri. Á Bíldudal fækkaði um 45%, en síðan er að vísu farið að ræða prósentutöluna annars staðar.

Í umsögn frá Bolungarvíkurkaupstað, segir með leyfi forseta:

„Bæjarráð Bolungarvíkur mótmælir harðlega þeirri ósanngjörnu mismunun fyrirtækja, einstaklinga í útgerð og sveitarfélaga sem fram kemur í frumvarpi til laga um veiðigjöld.

Samkvæmt frumvarpinu þá hefði slíkt veiðigjald sem komið hefði á átta stærstu útgerðirnar í Bolungarvík jafngilt 438 millj. kr. á árinu 2010. Upphæðin er hærri en sem nemur öllum skatttekjum sveitarfélagsins, þ.e. öllum útsvarstekjum, öllum fasteignasköttum og öllum greiðslum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga það ár. Þá nemur skatturinn sexföldum heildartekjum Bolungarvíkurhafnar það ár. Heildarveiðigjaldið frá öllum fyrirtækjum í sveitarfélögunum má áætla að hefði orðið enn þá hærra eða 454 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir að neinn hluti þessa gjalds renni til sveitarfélagsins aftur og gjaldið þýðir því tilflutning á fjármunum úr sveitarfélaginu til ríkisins sem þessu nemur, eða hálfri milljón króna á hvern íbúa sveitarfélagsins.“

Það má hins vegar benda á að ef stóra frumvarpið um breytingu á fiskveiðistjórn verður að lögum mundu einhverjar milljónir skila sér til baka, eins og kemur fram í umsögn Vesturbyggðar, annars byggðarlags á Vestfjörðum, en það hefði verið brotabrot af því sem hér er verið að leggja á hvað varðar veiðigjald. Ég ætla að fá að halda áfram að vitna í þessa umsögn, með leyfi forseta:

„Bolvíkingar hafa á undanförnum tveimur áratugum gengið í gegnum algera endurskipulagningu á sjávarútvegi sínum og má segja að nánast allar aflaheimildir í sveitarfélaginu hafa verið keyptar eftir að sveitarfélagið var nánast orðið kvótalaust. Stærsti hluti þeirra hefur verið keyptur á síðustu tíu árum.

Flestar útgerðir í Bolungarvík eru nýliðar í þeim skilningi að þær hafa keypt til sín nánast allar aflaheimildir sem þær hafa aðgang að í dag.

Forsendur frumvarpsins gera ráð fyrir „sýndarveröld“ þar sem m.a. er gert ráð fyrir að skuldbindingar sjávarútvegsfyrirtækja liggi eingöngu í fastafjármunum, þ.e. í vélum, skipum og húsakosti. Öllum má vera ljóst, ekki síst eftir þá miklu umræðu sem fram hefur farið um sjávarútvegsmál, að stærsti hluti skuldbindinga sjávarútvegsfyrirtækja er til kominn vegna kaupa á aflaheimildum. Val þessara fyrirtækja stóð einfaldlega um það að kaupa sér aflaheimildir eða leggja árar í bát og gefast upp. Af þessum sökum eru í mörgum tilfellum einungis 10 til 20% skuldbindinganna vegna fastafjármuna en 80 til 90% eru vegna kaupa á aflaheimildum. Fjármagnskostnaður þeirra er því allt að því tífaldur miðað við það sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Það er krafa bæjarráðs Bolungarvíkur að Alþingi beiti vandaðri vinnubrögðum í viðleitni sinni til breytinga á fiskveiðilöggjöfinni og falli frá þeirri stefnu að ráðast að undirstöðum sjávarbyggða og þeim fyrirtækjum sem þar eru vonandi að komast á legg, með jafnóskammfeilnum hætti og gert er í umræddu frumvarpi um veiðigjald.“

Annað byggðarlag, Vesturbyggð, gerir alvarlegar athugasemdir við bæði lagafrumvörpin, þ.e. um stjórn fiskveiða og veiðigjöld, sem nú liggja fyrir Alþingi. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Sérstaklega er gerð athugasemd við lagafrumvarp nr. 658, um veiðigjöld. Bæjarstjórn Vesturbyggðar krefst þess af Alþingi að reiknuð verði út af hlutlausum aðila áhrif fyrirhugaðra breytinga á stjórn fiskveiða og viðbótarskattlagningar á útgerðir. Kannað verði rækilega hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar muni hafa í för með sér á samfélögin og útgerðirnar, og þá sérstaklega á þá landshluta sem verið hafa í varnarbaráttu áratugum saman og þær niðurstöður verði kynntar opinberlega áður en lengra er haldið.“

Þegar þeir fara að reikna út frumvarpið eins og það liggur fyrir óbreytt reiknast þeim til að 220 millj. kr. mundu fara í greiðslu á veiðigjaldi og kvótastaðan minnka í samræmi við hitt frumvarpið. Þá telja þeir líklegt að viðbrögð útgerðarinnar og tengdra fyrirtækja verði þau að a.m.k. sex til átta starfsmönnum verði sagt upp, auk ófyrirsjáanlegra afleiddra áhrifa.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Bein áhrif á bæjarsjóð vegna útsvarslækkunar eru metin allt að 19 millj. kr. og er það líka mjög varlega áætlað. Með þessu má álykta að tæpar 300 milljónir flytjist frá Vesturbyggð til Reykjavíkur. Reynslan hefur sýnt að heldur ólíklegt er að þeir fjármunir skili sér til baka. Þá meta stjórnendur stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna í Vesturbyggð það svo að rekstur þeirra þoli ekki margföldun veiðigjalds og að þau verði gjaldþrota á mjög stuttum tíma ef greiða á allt að 70% af rekstrarafgangi til ríkisins.“

Þeir benda síðan jafnframt á að á fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var 2.–3. september 2011 var skorað á Alþingi „að tryggja að það auðlindagjald sem nú er innheimt af vestfirskum aflaheimildum og öll aukning þess renni til uppbyggingar atvinnulífs á Vestfjörðum. Auðlindagjaldið renni til rannsóknar, nýsköpunar og í fjárfestingarsjóð fyrir vestfirskar byggðir.“

Þegar var verið að reikna út hversu mikið mundi skila sér í hlut Vesturbyggðar af útleigu aflaheimilda sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu um fiskveiðistjórn, þá reiknaðist þeim til að 3–12 millj. kr. kæmu í hlut Vesturbyggðar af útleigu aflaheimilda sem er aðeins brotabrot af þeim fjármunum sem tapast úr samfélaginu við lagabreytinguna. Þeir vara síðan stjórnvöld mjög við að taka vanhugsaðar ákvarðanir sem geti stuðlað að hruni í sjávarútvegi og tengdum greinum, atvinnuleysi og þar með frekari fólksflótta af landsbyggðinni.

Virðulegi forseti. Áðan var kallað eftir því að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir yrði viðstödd umræðuna og ég mundi gjarnan líka vilja hvetja til þess að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir væri hér viðstödd vegna þess að mér þótti makalaust að hlusta á þá þingmenn sem hingað til hafa talað af mikilli mælsku og krafti fyrir einmitt þessum landshlutum, að þeir skyldu síðan voga sér, eins og kom fram í gær í máli hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, mig minnir undir liðnum störf þingsins, þar sem hún talaði um að menn væru einhvern veginn að stilla eða hvetja til átaka á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins með því að benda á þær umsóknir, rannsóknir og þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi í þessu máli. Þeir sem eru að efna til átaka á milli þessara tveggja svæða eru stjórnvöld, það er ríkisstjórnin sjálf með því að leggja þetta frumvarp fram. Það eru stjórnarliðar með því að tala fyrir því og hvetja til þess að það verði samþykkt eins og það liggur fyrir og meira að segja þó að búið væri að taka tillit til þeirra breytingartillagna sem meiri hluti atvinnuveganefndar hefur lagt til. Með þeim breytingartillögum er á engan máta verið að koma til móts við það sjónarmið, þetta skattfé mun fyrst og fremst renna til höfuðborgarinnar og reynslan segir okkur að mjög lítið af þeim fjármunum muni skila sér aftur til byggðanna.

Ég held einmitt að þeir þingmenn eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og þeir þingmenn sem búa á Vestfjörðum eða hafa tengsl þangað ættu einmitt að þekkja mjög vel hversu erfiðlega það hefur gengið að toga, þó ekki væri nema eitt einstaka opinbert starf til þess landshluta. Og vil ég minna á þá „baráttu“ sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir tók hér fyrir því að tryggja að prófessorsstaða Jóns Sigurðssonar yrði staðsett þar, ekki gekk það sérstaklega vel. Þegar menn síðan koma hingað og leyfa sér að tala fyrir því að fleiri hundruð milljónir eigi að streyma frá þeim byggðarlögum hingað án þess að koma með nokkur raunveruleg mótvægisákvæði inn í þessi frumvörp til að tryggja það að fjármunir fari aftur til þessara landshluta til að skapa ný, áhugaverð og spennandi störf innan greinarinnar sjálfrar, þá verð ég að segja að málflutningur viðkomandi hvað þessi málefni varðar varðandi byggðamál er fullkomlega ómarktækur.

Svo ég fái að halda áfram og flytja mig frá Vestfjörðum til Norðurlands eystra þá er hér yfirlýsing bæjarfulltrúa og bæjarstjóra Fjallabyggðar, með leyfi forseta:

„Við undirritaðir bæjarfulltrúar og bæjarstjóri Fjallabyggðar vörum Alþingi sterklega við því að samþykkja fyrirliggjandi frumvörp ríkisstjórnarinnar til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

Greinargerð óháðra sérfræðinga, sem fylgir frumvörpunum og sem unnin var að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, ætti að hvetja löggjafann til að staldra við og ígrunda gaumgæfilega áhrif lagasetningar á rekstur og afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og á sjávarbyggðir landsins.

Áfram segir í yfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Þá benda sérfræðingarnir á að byggðaaðgerðir frumvarpsins séu „ólíklegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að“, enda skorti enn þann „langtímastöðugleika sem getur skapað grundvöll fyrir uppbyggingu atvinnulífsins í sjávarbyggðum“.“

Við höldum áfram á Norðurlandi eystra og lítum á umsögn Norðurþings. Þeir taka undir það sem kemur fram í umsögn og yfirlýsingu Fjallabyggðar og benda einmitt á að þau orð sem notuð eru um það að þetta frumvarp muni stuðla að „umhleypingum“ ef það verður að lögum.

Ég hef hins vegar mestan áhuga á að fara í gegnum mjög ítarlega umsögn Langanesbyggðar sem var send inn 20. apríl, en þar sem aðeins þrjár mínútur eru eftir af ræðutíma mínum geri ég ráð fyrir að ég muni þurfa að fara í gegnum hana í annarri ræðu. Ég ætla samt að fá að hefja umfjöllun mína um hana, með leyfi forseta:

„Það er mat sveitarstjórnar Langanesbyggðar að umrætt frumvarp til laga um veiðigjöld muni hafa gríðarlegar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sveitarfélagið. Hagsmunir sjávarbyggða á borð við Langanesbyggð fara saman við hagsmuni öflugra sjávarútvegsfyrirtækja. Ljóst er að veiðigjöldin sem frumvarpið boðar yrðu afar íþyngjandi fyrir rekstur þeirra. Þannig mundi frumvarpið leiða til verulegs samdráttar í starfsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna og þar af leiðandi draga úr umsvifum þeirra í sjávarbyggðunum.“

Þeir fara síðan í umsögn sinni almennt um stöðuna í Langanesbyggð, hvernig þeir áætla að áhrifin verði á Langanesbyggð. Þó að ég hafi í fyrri ræðu minni farið sérstaklega í gegnum þessi orð þá sé ég að þeir vitna líka í viðtal í Útveginum frá því 1997 þar sem haft er eftir hv. þáverandi þingmanni Alþýðubandalagsins, Steingrími J. Sigfússyni, sem er núverandi formaður Vinstri grænna og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sá sem leggur þetta mál fram núna — þar er vitnað í orð hans, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn Langanesbyggðar getur tekið heils hugar undir það viðhorf að „hugmyndir um að taka milljarða eða milljarðatugi út úr sjávarútveginum í formi veiðigjalds eru í besta falli varhugaverðar og í versta falli stórhættulegar. […]“ — Ég vil minna á að þetta eru orð núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, orð hans, ekki mín, ekki þeirra í Langanesbyggð heldur. — „Ekkert eitt mál er afdrifaríkara fyrir framtíð byggðakeðjunnar hringinn í kringum landið. […] Sá hagnaður, í tapárum það eigin fé, fyrirtækjanna sem færi í að greiða gjaldið, færi út úr fyrirtækjunum og frá byggðarlögunum. Það verður ekki eftir þar til fjárfestingar og uppbyggingar. […] Það hefur alltaf verið þannig að starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækjanna, sjómennirnir, fiskvinnslufólkið og íbúar sjávarútvegsbyggðarlaganna hafa deilt og munu deila kjörum með sjávarútveginum á sínum heimaslóðum.““

Eitt að lokum, ég man alltaf eftir því að stuttu eftir að ég flutti til Vestmannaeyja hafði fjölskylda mín verið í matarboði — nei, það var nokkrum árum eftir að þenslan var sem mest á höfuðborgarsvæðinu, þá kom hún heim eftir að hafa verið í matarboði í Reykjavík og einhver sagði við þau að þau ættu að hætta að vera að velta þessum sjávarútvegi fyrir sér því að nú væri málið að fara að starfa í bankageiranum, menn ættu bara að fara að kaupa og selja hlutabréf og græða sem mest á því. Það væri meira ruglið að standa í þessu. Það má svo sem alveg færa rök fyrir því að á þeim tíma var staðan alveg gífurlega erfið í sjávarútveginum. (Forseti hringir.) Nú eru menn aðeins farnir að rétta úr kútnum og þess vegna (Forseti hringir.) er náttúrlega ekkert skrýtið að fólki bregði svona rosalega við þegar hnefinn kemur síðan héðan frá Reykjavík.