Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 12:51:56 (13060)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:51]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Byggðafesta og fjölbreytni starfa er kannski lykilatriði þegar kemur að landsbyggðinni og atvinnuuppbyggingu þar og betra samfélagi. Ég tel að það sé óbúandi við þau skilyrði að útgerðarmenn sem að margra mati og eigin mati eiga kvótann geti farið á einni nóttu frá byggðarlaginu og skilið það eftir í rjúkandi rúst atvinnulega séð. Þess vegna tel ég mikilvægt að þessi auðlindarenta skili sér til fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar til að auka á fjölbreytni í staðinn fyrir einhæfni í atvinnulífinu hringinn í kringum landið þar sem 87% aflaheimilda er að finna.

Mig langar að heyra aðeins betur frá hv. þm. Eygló Harðardóttur með hvaða hætti hún sér þessa auðlindarentu skila sér til samfélagsins hvað varðar uppbyggingarþætti vegna þess að það er hægt að nota þessa peninga í mörgu tilliti, til að styrkja sjávarútveginn eða til að styrkja fjölbreytni atvinnulífsins á viðkomandi svæðum sem eru kannski einum of háð einni atvinnugrein.