Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 12:53:04 (13061)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir þessa spurningu vegna þess að þetta er nokkuð sem mér virkilega er annt um. Það tengist síðan annarri grundvallarhugsun í samvinnuhugmyndafræðinni, þ.e. mikilvægi valddreifingar. Ég held að við séum sammála um það að samþjöppun valds er aldrei af hinu góða. Það sem við höfum séð með byggðaþróuninni á Íslandi er að vald hefur þjappast gífurlega saman á höfuðborgarsvæðinu.

Þær byggðaaðgerðir sem hafa að mínu mati skilað mestum árangri eru annars vegar uppbygging menntastofnana hringinn í kringum landið og hins vegar hef ég vísað á vaxtarsamningana sem byggja einmitt á samvinnuhugmyndafræðinni og styrk heimamanna sjálfra. Eins og við tölum um að ákveðið hlutfall fari til sveitarfélaganna, landshlutasamtakanna, gæti líka verið ákveðin útfærsla raunar að tryggja það að þessir fjármunir færu í gegnum vaxtarsamningana vegna þess að þar vinna allir þessir aðilar saman að uppbyggingu og nýsköpun á viðkomandi svæðum (Forseti hringir.) með því að búa til ný og áhugaverð störf sem skiptir gífurlega miklu máli.