Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 12:54:23 (13062)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar allt kemur til alls erum við að velta því fyrir okkur með hvaða hætti við getum skipulagt sjávarútveg okkar þannig að það verði til sem mests bata fyrir þjóðfélagsþegnana. Menn hafa reynt að fara ýmsar leiðir í þessu sambandi. Nú er verið að reyna að fara þá leið að auka skattheimtu á sjávarútveginn til að dreifa síðan peningunum í gegnum ríkissjóð til einhverra tiltekinna verkefna. Þá vaknar sú spurning sem hv. þingmaður vekur upp hvort ekki sé skynsamlegra að ráðstafa þessu í gegnum sveitarfélögin og fara einhvern veginn með peningana í hring.

Í öðru lagi hefur komið upp það sjónarmið, sem t.d. Alþýðusamband Íslands talar mjög fyrir, að styrkja gengið þannig að kaupmáttur almennings hækki með lægra innflutningsverði o.s.frv. og búa þannig til betri aðstöðu fyrir aðrar atvinnugreinar í landinu.

Í þriðja lagi er auðvitað sú spurning hvort ekki sé skynsamlegast að reyna að halda sem mestu eftir af arðinum í sjávarútveginum þannig að sjávarútvegurinn geti notað hann til að fara í frekari fjárfestingar til að hækka laun í atvinnugreininni og koma þannig arðinum til skila í gegn til þjóðfélagsins og ekki síst til þess fólks sem vinnur í atvinnugreininni.