Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 12:56:59 (13064)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í athugunum sem hafa verið gerðar og kemur raunar fram í athugasemdum með frumvarpinu að það er ljóst mál að forsendan fyrir því að menn nái þessum veiðiskatti í því magni sem verið er að tala um er sú að gengið haldist álíka veikt og það er núna. Alþýðusamband Íslands, sem talar fyrir því að nauðsynlegt sé að koma arðinum út í gegnum sterkara gengi, bendir á að ef gengi íslensku krónunnar styrkist um 20%, sem er raunar forsendan fyrir því að þeir kjarasamningar sem nú eru í gildi geti haldið áfram, þá muni það leiða til þriðjungslækkunar á framlegð og þar með lækkar auðvitað veiðigjaldið miðað við þá upphaflegu forsendu sem kemur fram í frumvarpinu um 24–25 milljarða veiðigjald í útreikningum á grundvelli forsendna frá 2010. Það mun hafa í för með sér að veiðigjaldið verði ekki þessir 24–25 milljarðar heldur 8–9 milljarðar eða þar um bil. Við sjáum á þessu að þetta mál er býsna flókið. Það virðist samt alveg blasa við að forsendan er sú að gengið verði veikt, (Forseti hringir.) enda stuðlar hærra veiðigjald frekar að lægra gengi (Forseti hringir.) eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson benti á.