Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 13:02:33 (13068)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég held að við hv. þm. Eygló Harðardóttir séum þó nokkuð sammála um það sem hún sagði í ræðu sinni nema ég er í grundvallaratriðum samt ósammála þeirri hugmyndafræði sem mér finnst vera að skjóta upp kollinum víða í samfélaginu, að nánast allar tekjur eigi að vera eftir þar sem þeirra er aflað. Ég er í grundvallaratriðum ósammála þeirri kenningu. Það er ekki í anda þess samfélags sem við erum að reyna að reka, að hér búi ein þjóð í einu landi, og þannig skapast gríðarleg mismunun í samfélaginu. Ég minni á að Reykjavík er stærsta verstöðin og hingað koma þá væntanlega mestu tekjurnar.

Mig langar hins vegar til að spyrja hv. þingmann um þær breytingartillögur sem komið hafa varðandi þetta frumvarp, sérstaklega þá breytingartillögu sem varðar það að hægt sé að veita þeim afslátt af veiðigjaldi sem fjárfest hafa í aflaheimildum. Ég hef spurt allnokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins út í þá breytingartillögu en þeir hafa kosið að svara mér ekki þannig að ég ætla að freista þess að þingmaður Framsóknarflokksins gefi mér svar við þeirri spurningu.