Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Miðvikudaginn 13. júní 2012, kl. 15:07:13 (13452)


140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:07]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eftir vandlega og ítarlega yfirferð um gerð Vaðlaheiðarganga í fjárlaganefnd Alþingis er það niðurstaða mín og mikils meiri hluta nefndarinnar að áhættan af þessari framkvæmd fyrir ríkissjóð sé lítil en ávinningurinn mikill. Samfélagslegur ávinningur af gerð Vaðlaheiðarganga er verulegur. Innviðir samfélagsins fyrir norðaustan styrkjast stórum og hægt er að rekja jákvæð áhrif fyrir landsmenn alla.

Gerð Vaðlaheiðarganga marka þáttaskil í samgöngumálum á Norðurlandi eystra og skilar sér langt inn í þjóðarbúið allt. Hér er um að ræða afar brýnt verkefni sem mun koma þjóðinni allri til góða og með því að vinna með heimamönnum að framgangi þessa verkefnis í sérstöku félagi í stað þess að ríkissjóður kosti framkvæmdina að fullu þegar að henni kemur í samgönguáætlun er ávinningur ríkisins mikill og skilar sér ríkulega til okkar allra.

Ég óska okkur öllum, Alþingi, íbúum þar norðeystra og landsmönnum öllum, til hamingju með þá ákvörðun að fara í gerð Vaðlaheiðarganga.