Innheimtulög

Mánudaginn 18. júní 2012, kl. 11:18:03 (13841)


140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef áður minnst á það í þessum stól að ég er svolítið undrandi á því með hvaða hætti málum er skipt milli nefnda í þinginu. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna þetta tiltekna mál, sem er reyndar flutt af efnahags- og viðskiptanefnd, er ekki í allsherjarnefnd. Við ræðum breytingu á innheimtulögum og hér er um að ræða réttarfarsatriði sem ég tel að eigi betur heima í allsherjarnefnd en í þeirri hv. nefnd sem flytur málið.

Er það svo, frú forseti, að ég sem nefndarmaður í velferðarnefnd geti staðið fyrir því að nefndin flytji mál, segjum um breytingar á Háskóla Íslands, og þar með verði málið tekið fyrir í velferðarnefnd? Ég tek þetta fram hér vegna þess að ég talaði um þetta líka þegar við vorum með til meðferðar breytingar á barnalögum sem áttu að mínu viti heima í allsherjarnefnd. Það er þó skárra við málsmeðferð þessa máls að greinilega fékkst umsögn frá allsherjarnefnd í þessu máli en svo er ekki um barnavernd.