Innheimtulög

Mánudaginn 18. júní 2012, kl. 12:16:54 (13857)


140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[12:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á innheimtulögum sem er flutt af hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Hér hefur orðið nokkur umræða um það að málið hefði átt að flytjast af allsherjar- og menntamálanefnd og álit þeirrar nefndar á þessu máli liggur fyrir. Það er ósköp einfalt, hún gerir enga athugasemd við það að málið sé flutt af efnahags- og viðskiptanefnd, er þó með einhverjar athugasemdir um að það þurfi að vera lagatilvísun í lögunum en er ekki í grundvallaratriðum á móti því að efnahags- og viðskiptanefnd flytji málið. Ég hefði reyndar talið að þetta ætti heldur að heyra undir allsherjar- og menntamálanefnd en það er önnur saga.

Þetta frumvarp lætur lítið yfir sér og virðist ganga út frá sjálfsögðum hlutum. Í fyrsta lagi vildi ég segja að það hefur orðið gífurlega mikið los á aga og sjálfsögðum hlutum í samskiptum skuldara og kröfuhafa almennt séð. Þar koma náttúrlega til hæstaréttardómar sem dæma vissa gerninga ólögmæta frá upphafi. Síðan var heilmikið los á því hvaða vexti ætti að nota, hvort miða ætti við vexti í krónum, hafa krónuvexti fyrst það var skipt um mynt, skipt frá svissneskum frönkum sem bera mjög lága vexti á heimsvísu yfir í krónur sem bera mjög háa vexti á heimsvísu eða þannig. Það var fyrsta úrræðið. Síðan kemur dómur um að það eigi að nota vextina sem voru á láninu þó að skipt hafi verið um mynt sem er mjög sérstakt og það bara fyrir fasteignaveð. Mér skilst að það hafi ekki verið hjá bílalánum. Þetta hefur búið til ógurlega mikla óvissu og óreiðu í öllu kerfinu og það er eiginlega orðin þjóðarnauðsyn að fá á hreint hvað gildir í þessu. Þetta hefur líka leitt til þess að fólk hefur skirrst við að greiða af lánum samkvæmt samningi af því að ekki liggur fyrir hver samningurinn er í raun. Allt leiðir þetta til mikillar óvissu og ég mundi segja siðleysis á báða bóga, bæði hjá kröfuhöfum og skuldurum. Það er eiginlega komin upp sú staða, frú forseti, að maður veit ekki hvort samningar haldi yfirleitt sem ætti þó að vera grundvallaratriði í réttarríki. Þegar tveir aðilar gera með sér samning eiga menn að standa við hann en þannig er það ekki lengur. Það getur verið ágreiningur um hvort samningurinn falli undir þennan hæstaréttardóminn eða hinn. Svo er kannski búið að framkvæma vörslusviptingu og þá þarf það að ganga til baka o.s.frv. Allt er þetta slæmt.

Maður þarf að lesa þetta mjög nákvæmlega. Ég er ekki lögfræðingur, frú forseti, en ég veit að það sem er í smáa letrinu skiptir máli og þar stendur „enda sé skuldari í vanskilum með afborganir eða lánskostnað“. Það eru bara þessi tvö atriði sem gilda. Það þarf að tryggja bifreiðar, þær mega ekki vera ótryggðar á götum, þá grípur lögreglan væntanlega inn í, en svo eru líka skattar sem þarf að greiða af þessum bifreiðum og það getur verið viðhald sem þarf að greiða. Allt er þetta kostnaður sem ekki fellur undir þetta ákvæði. Þetta er allt dálítið sérkennilegt í mínum huga. Maður getur verið í vanskilum með allt saman og á þeim tímapunkti sem skattarnir falla til má allt í einu vörslusvipta án samþykkis eða þannig skil ég það. Ég veit ekki hvort nefndin hefur farið í gegnum þessi smáatriði. Það má sem sagt ekki vörslusvipta án samþykkis ef um er að ræða afborgun eða lánskostnað. Ég veit ekki með lögfræðikostnað, það er sennilega ekki lánskostnaður heldur kostnaður sem fellur á hlutinn af öðrum ástæðum.

Svo er annað sem mér finnst miklu alvarlegra af því að menn hafa verið svo mikið að hugsa um bifreiðar, bifreiðatryggingar og þar sem bifreið er að veði. Þaðan koma dæmin í fjölmiðlum og hafa valdið uppnámi þegar gengið er hart fram og ómaklega, jafnvel gengið að bifreið úti á bílastæði og hún dregin í burt og inni í bifreiðinni eru kannski einhverjir hlutir sem viðkomandi á, tölva, myndavél eða eitthvað í hanskahólfinu. Ég flokka það undir þjófnað, frú forseti, þegar það gerist en það eru ekki beint góðir siðir í gangi á hvorugan veginn.

Svo hefur maður líka heyrt að það hafi ekki náðst í fólk mánuðum saman og það ekur um í bílum sem það á ekkert í, skuldar allt í og hefur jafnvel aldrei borgað neitt fyrir. Það finnst manni heldur ekki siðlegt eða eðlilegt.

Aðrir hlutir en bílar koma þarna inn í, t.d. veð í hlutabréfum. Hvað gerist ef hlutabréfin lækka í verði og menn ætla að beita veðkalli? Ég veit ekki hvort nefndin fór í gegnum svoleiðis hluti. Síðan geta verið veð í vinnuvélum sem rýrna mjög hratt, vinna kannski við virkjanir, eru keyrðar dag og nótt og þá er spurning hvort megi taka þær þar því að það er ekki á lóð viðkomandi. Mér finnst þetta hvorki nógu skýrt né afmarkað.

Svo er mjög algengt að menn selji vörur og hafi eignarhald í vörunum, hafa kannski selt þrjú bretti af sementi. Það er eignarhald í sementinu. Þarf þá að fá samþykki eiganda sementsins sem getur verið einhver heildsala sem seldi (Gripið fram í.) smásölunni sementið? Þetta getur orðið dálítið flókið. Ég er ekki viss um að menn hafi farið í gegnum þetta allt saman í hv. nefnd sem málið flytur. Því miður bárust bara tvær umsagnir um þetta mál og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir er búin að fara vandlega í gegnum þær en það er bara önnur hliðin, hlið kröfuhafanna. Ég sakna þess að hafa ekki séð hlið skuldaranna í þessu máli og til dæmis hefur ASÍ oft staðið vörð um þann hluta mannkynsins. Hér er engin umsögn frá ASÍ og ég sakna þess. Það hefði verið gott að fá afstöðu ASÍ inn í umræðuna.

Ég óttast dálítið að þetta fari lengra vegna þess að í umsögn Lýsingar er þess getið að þetta gæti verið brot á eignarrétti stjórnarskrárinnar. Þá er illa af stað farið ef svo skyldi vera, ef hún skyldi jafnvel hafa rétt fyrir sér. Ég veit ekki hvað er algengt að menn borgi, ég vona að það sé ekki algengt að menn borgi ekki af lánum sínum og standi ekki í skilum en þó hefur maður heyrt að það sé vaxandi, að vegna þessarar óvissu vilji menn ekki borga af lánum sem þeir vita ekki einu sinni hvort eru að öllu leyti lögleg, og þá mun væntanlega reyna oftar á það ef menn neita að skrifa undir og samþykkja að viðkomandi hlutur sé tekinn. Það geta menn náttúrlega gert, það getur enginn þvingað mann til að skrifa undir eitt eða neitt. Svo heldur hann bara áfram að keyra á sínum bíl eða traktor eða hvað það nú er, selja sementið af brettinu, (GÞÞ: Dómstóla.) og þá þarf að leita aðfarar. Ég er ansi hræddur um að þetta muni auka mikið beiðnir um aðfarir hjá dómstólum. Hér kemur fram að það taki jafnvel sex mánuði að fá slíkt fram og allan þennan tíma keyrir maðurinn um á bílnum og hefur ekkert borgað af honum. Mér finnst þetta óréttmætt gagnvart þeim sem borga, standa alltaf í skilum, borga sitt og þurfa að horfa upp á það og vita af því að aðrir aka um á bifreiðum án þess að borga neitt. Það er vegna þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd flutti eitthvert frumvarp sem gerir það að verkum að það má ekkert gera nema þessi maður skrifi undir, veiti samþykki sitt.

Ég vildi gjarnan spyrja nefndarmenn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hvort það hafi verið farið í gegnum þetta í nefndinni, hvort þetta sé skothelt og hvort þau tilfelli sem ég nefni hér séu svo fátíð að þetta muni ekki valda dómstólum mikilli vinnu. Það sem einkennir allt þetta dæmi er að það er vaxandi siðleysi og agaleysi í fjármálum og það er hætt að gilda sú gamla góða regla að samningar skuli haldnir, bæði munnlegir og skriflegir, og það er orðin heilmikil óvissa. Óvissa í fjármálum er ekki góð, frú forseti.