Veiðigjöld

Mánudaginn 18. júní 2012, kl. 17:22:34 (13894)


140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum veiðigjaldið hér enn einu sinni. Það tengist að sjálfsögðu frumvarpi um fiskveiðistjórn sem enn er í nefnd en verður væntanlega afgreitt fljótlega, jafnvel í kvöldmatarhléi. Veiðigjaldið hefur þann annmarka að það tekur mið af stöðu útgerðarinnar og stöðu greinarinnar árið áður. Fimmtán til sextán mánuðir geta liðið frá því árinu lýkur og þar til skatturinn byrjar að bíta að fullu og miklu lengur en til enda þess fiskveiðiárs sem um ræðir. Þess vegna getur þetta orðið mjög hættulegt gjald ef staða greinarinnar versnar skyndilega, en er ef til vill bærilegt ef staðan helst áfram góð. Auðvitað mun koma í ljós að mörg fyrirtæki þola þetta ekki, þau fara á hausinn. Og það er dálítið undarlegt, frú forseti, [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í hliðarsal.)

að nota eigi afraksturinn af þessu gjaldi til að auka atvinnu í sumum greinum á sama tíma og verið er að keyra fyrirtæki í þrot sem veldur atvinnuleysi. Þetta er allt mótsagnakennt, það er eiginlega bara verið að hræra í pottinum. Enda hefur það sýnt sig í tímans rás að skattar sem flytja arðsemi frá einni atvinnugrein til annarrar auka ekkert á heildaratvinnu í þjóðfélaginu. Það gerist ekkert við það að hræra í pottinum.

Frú forseti. Efasemdir hafa komið fram um útreikningana að baki veiðigjaldinu, að mat á arðsemi greinarinnar sé ekki rétt, að gleymst hafi að taka afskriftir inn í dæmið. Þeir sem eitthvað þekkja til vita að afskriftir eru mjög mikilvægar í rekstri fyrirtækja. Ef ekki er leyft að taka tillit til afskrifta eru öll fyrirtæki dauðadæmd vegna þess að tæki og tól sem menn nota úreldast sama hve langur endingartíminn er. Þó að hann sé 100 ár þarf að afskrifa um 1% á ári. Ef því er gleymt í þessu dæmi öllu saman getur það leitt til mjög skakkrar niðurstöðu, mjög rangs mats á verðmæti og afkastagetu auðlindarinnar. Ég hef verulega miklar áhyggjur af þessu veiðigjaldi af þeim ástæðum.

Ég ætla ekki að fara út í miklar efasemdir mínar um fiskveiðistjórnarfrumvarpið. Ég geri ráð fyrir að við fáum að ræða það þegar þar að kemur, þó að mér skiljist að ræðutíminn verði ekki langur.