Veiðigjöld

Mánudaginn 18. júní 2012, kl. 17:26:08 (13895)


140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur náðst samkomulag um afgreiðslu mála hér á Alþingi. Við framsóknarmenn sendum út fréttatilkynningu fyrr í dag. Við teljum að með því samkomulagi hafi verið komið í veg fyrir skaðlegustu áhrif frumvarpanna tveggja, um veiðigjald annars vegar og breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu hins vegar, á íslenskt efnahagslíf.

Eins og fram hefur komið hefur Framsóknarflokkurinn tekið undir það að eðlilegt sé að leggja á hóflegt veiðigjald og jafnvel hækka það eitthvað frá því sem verið hefur. Við höfum hins vegar lagt áherslu á að sú hækkun verði innan skynsamlegra marka til að tryggja að á þeim grunni verði atvinnu þúsund einstaklinga í sjávarútvegi og tengdum greinum ekki ógnað.

Við höfum einnig lagt mikla áherslu á að breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og veiðigjaldsfrumvarpinu séu unnar í sem víðtækastri sátt. Hluti þess samkomulags sem náðist í dag er meðal annars skrifleg yfirlýsing frá hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar er fallið frá þeim hugmyndum stjórnarflokkanna sem Framsóknarflokkurinn hefur talið skaðlegastar og gagnrýni í umsögnum sérfræðinga, sveitarfélaga og margra annarra, nánast allra, beindist helst gegn.

Samkvæmt yfirlýsingunni er umfjöllun um frumvarp um stjórn fiskveiða frestað til næsta þings, en fulltrúar allra þingflokka munu halda áfram samráðsvinnu. Verði nýtt frumvarp um fiskveiðistjórn lagt fram mun það byggjast á vinnu þess hóps.

Veiðigjaldið, sem við ræðum hér, verði afmarkað til eins árs, verði að hámarki 12,7 til 13,8 milljarðar kr. Gjaldið verði lagt á til eins árs, en í millitíðinni muni sérfræðihópur endurmeta það. Eins og fram hefur komið verður frumvarpið endurskoðað strax á fyrsta ári ef forsendur gjaldsins, sem eru vægast sagt óljósar, reynast rangar. Það sama á við ef verðþróun á mörkuðum, aflabrestur eða önnur óáran, sem getur komið utan frá, gefur tilefni til endurskoðunar.

Frú forseti. Auðvitað er þetta veruleg lækkun frá þeim áformum sem ríkisstjórnin lagði fram. Hún var með hugmyndir um 24–26 milljarða kr. gjöld á sjávarútveginn. Hvað þá frumvarpið — ef menn reiknuðu það út mátti sjá að það mundi leiða til 50 milljarða skattlagningar og langt umfram, um 140% skattlagningar miðað við það sem þar var gefið.

Allt frá hruni hefur verið talað um hve mikilvægt sé að vanda alla lagasetningu. Augljóst er að ekki hefur verið vandað til verka hvað varðar það frumvarp sem liggur fyrir Alþingi um veiðigjöld. Um er að ræða viðbótarskattlagningu upp á tugi milljarða sem stjórnvöld áforma að leggja á eina atvinnugrein og augljóst að það kemur misjafnlega niður á fyrirtækjum. Fjölbreytileiki er mikill í íslenskum sjávarútvegi og framlegð ólík eftir viðfangsefnum, vinnsluferlum og markaðssvæðum. Rætt er um að skattleggja umframarð í atvinnugreininni sem auðlindagjald. Sú aðferð sem beitt er samkvæmt frumvarpinu er hrein og klár kórvilla og getur hvorki talist eðlileg, sanngjörn, né staðist jafnræði.

Í fyrsta lagi eru þorskígildi, skattstofninn, fráleit viðmið þar sem þau gefa enga mynd af afkomu í viðkomandi tegund. Í öðru lagi er sanngjarnt að allir greiði jafnt ef skatturinn á að vera greiðsla fyrir aðgang að auðlindinni, en ekki mismuna aðilum eftir magni. Í þriðja lagi er ekki eðlilegt að skuldastaða aðila hafi áhrif á gjaldtöku og auðlindagjald. Í fjórða lagi er best að slíkt gjald miðist við landaðan afla en ekki úthlutaðar heimildir. Í fimmta lagi er um að ræða sérstakan skatt á atvinnulíf á landsbyggðinni sem sogar þaðan fjármagn og veikir landsbyggðina.

Áform um að afkoma í landvinnslu hækki veiðigjald á kíló sem lagt sé á útgerðaraðila kippa burt öllum hvata til að efla landvinnsluna og þróa. Slík ofurskattlagning sem fram kemur hér í frumvarpinu fælir ungt fólk frá þátttöku í atvinnugreininni og kemur í veg fyrir nauðsynlegar fjárfestingar og framþróun til mikils tjóns fyrir land og þjóð.

Við framsóknarmenn höfum lagt til það sem við höfum getað til að reyna að minnka áhrif þessa. Frumvarpið mun fara til nefndar að mér skilst og ég óska eftir því að farið verði yfir þær breytingartillögur sem fram hafa komið og einnig þarf að taka tillit til þeirra sem eru hér í þessu samkomulagi ríkisstjórnarflokkanna og formanna flokkanna.