Veiðigjöld

Mánudaginn 18. júní 2012, kl. 18:16:52 (13902)


140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:16]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að biðja hæstv. forseta að kalla til salar ráðherra hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarþingmenn. Það er fáránlegt að vera að ræða veiðigjald og ekki einn einasti hæstv. ráðherra er í salnum og einn stjórnarþingmaður búinn að vera hérna stutta stund og er núna að fara úr salnum.

(Forseti (SIJ): Forseti mun koma þessum skilaboðum til ráðherra ríkisstjórnarinnar sem og stjórnarliða.)

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn Íslands fetar núna í fótspor útrásarvíkinganna sem settu Ísland að mörgu leyti í rúst á sínum tíma. Þessir útrásarvíkingar sem við þekkjum frá síðustu missirum tæmdu bankana innan frá, tæmdu þá frá A til Ö. Sama ætlar ríkisstjórn Íslands nú að gera við höfuðatvinnugrein Íslendinga, sjávarútveginn, hún ætlar að tæma sjávarútveginn innan frá og skilja þar eftir auðn og aumingjaskap.

Lifibrauð íslensku þjóðarinnar er frá sjónum. Þar liggja möguleikarnir og væntingarnar sem við verðum að byggja á og þetta er ríkisstjórn Íslands að flaka inn í bein og merja beinin um leið.

Virðulegi forseti. Ég hef gert það í dag að tala við forsvarsmenn fyrirtækja í tíu sjávarútvegsplássum á Íslandi, rétt til að heyra hljóðið í þeim um þessar mundir í kjölfar þessarar umræðu og þeirrar valdbeitingar og valdníðingar hæstv. ríkisstjórnar sem felst í afgreiðslu á frumvarpi hennar um veiðigjöld, og ég tala ekki um fiskveiðistjórnarfrumvarps. Íslenska ríkisstjórnin er að setja íslenskan sjávarútveg í nauðung. Það er annað orð sem maður ætti að nota sem liggur mjög nærri en er yfirleitt notað um kynferðislegt ofbeldi og þess vegna nota ég ekki það orð, en nauðung er það sem á að hella yfir íslenskan sjávarútveg og bjóða Íslendingum upp á. Hvílík ósvinna, hvílíkur sóðaskapur. Þetta eru orð um einhverja ljótustu verknaði sem um getur í samfélagi siðaðs fólks og það er hæstv. ríkisstjórn sem stendur fyrir því að traðka á íslenska sjávarútveginum og möguleikum íslensku þjóðarinnar til að vinna sér til hags og betra lífs.

Í Grundarfirði er til að mynda fyrirtæki með rúmlega 80 starfsmenn, sjómenn og fiskvinnslufólk. Ef fram gengur með þessa valdníðslu íslensku ríkisstjórnarinnar með gjaldtöku upp á 13–15 milljarða þýðir það að þetta stærsta fyrirtæki í Grundarfirði mun minnka, fækka starfsmönnum úr 80 í um það bil 20. Fiskvinnslan leggst niður, útgerðin stendur eftir, stendur í járnum og berst í bökkum og það fjarar undan fast og ákveðið. Það vantar endurnýjun í nánast öllum þáttum sjávarútvegsins. Einstaka fyrirtæki hefur haft borð fyrir báru og stofnað til skulda, hefur annars ekki getað byggt upp og haldið eðlilegri þróun atvinnutækjanna. Þar eru miklar skuldir og þetta er allt á sömu bókina lært. Það er keyrt á þessa atvinnugrein með óþolandi barsmíðum.

Í Gerplu lét Halldór Laxness mann reiða til höggs og höggva mann í herðar niður af því að hann lá svo vel við höggi. Hæstv. ríkisstjórn gengur nú að sjávarútvegi Íslendinga og lætur fallöxina ríða á sjávarútveginn og hikstar ekki. Það er með ólíkindum að jafnvel reyndir þingmenn eins og hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson sem er núna kominn í salinn, einn stjórnarþingmanna og situr hér kurteis og fínn að vanda, láti þetta yfir sig ganga endalaust, hann hlýðir og hlýðir. Og hefur hann þó einhvern tíma áður haft bein í nefinu til að bregðast við og ganga til góðra hluta og verka en því er lokið.

Í Grundarfirði og á svæðinu við Snæfellsnes var gerð úttekt á 24 útvegsfyrirtækjum miðað við stefnu og vilja ríkisstjórnarinnar. Niðurstaðan var að 17 af 24 útgerðum færu á hausinn. Að þessu er hæstv. ríkisstjórn að vinna. Þetta þýðir til dæmis fyrir Grundarfjörð að þar mundi fiskvinnslan leggjast af og þessi vinnubrögð mundu þýða að fiskvinnsla yrði ekki á tugum staða á Íslandi eins og nú er heldur aðeins fimm, sex stöðum sem hefðu bolmagn, í krafti stærðar sinnar, að draga að sér fiskvinnsluna. Hvað á þá að gera við fólkið sem vinnur þessa vinnu í sjávarplássum vítt og breitt um landið? Hvað á að gera við 60 fjölskyldur í Grundarfirði sem verða skildar eftir úti á klaka? Það væri fróðlegt að heyra hæstv. utanríkisráðherra svara þessu og sjá hvort það finnst ekki enn þá einhver beintota í nefi hans.

Síldarvinnslan á Neskaupstað, eitt öflugasta fyrirtæki landsins fer ekki á hausinn þó að þessi nauðung sé sett á útveginn en það mun bresta í taumum og bresta í borðum og þeim verður settur stóllinn fyrir dyrnar og þrengingaról sett að hálsi þeirra. Þeir hafa til dæmis núna í sumar verið að ráða 50 ungmenni í vinnu. Það kæmi ekki til greina ef vilji ríkisstjórnar Íslands gengur fram. Þá verður ekki svigrúm til að hreyfa sig neitt heldur aðeins að halda þrengstu hlutum í fátæktarstöðu. Eða hvaða vit er í því, virðulegi forseti, að 5,3% af öllum kvóta sem fyrirtæki landsins hafa miðað við, hverfi í potta, í hráskinnsleik, klíkuskap og mismunun fólksins í landinu. 5,3% munu þýða 10–15% lækkun á framlegð fyrirtækja í sjávarútvegi. (Gripið fram í.) Það er ekkert smáræði í grein sem er háð sveiflum og veiðimennsku. Nei, hæstv. utanríkisráðherra. Það yrði 10–15% lækkun á framlegð og ef hæstv. ráðherra getur bent á annað þá skora ég á hann að gera það og ekki vera að hvísla eitthvað í stólum og bak við gardínur heldur tala beint og láta hlutina koma fram úr því að hann gefur þá í skyn.

Það stefnir í við aðgerðir ríkisstjórnarinnar að allt að 70% af tekjum sjávarútvegsins verði hirtar í ríkissjóð og sjávarútvegurinn gerður þannig að leiguliða ríkissjóðs Íslands. Það á að fara að endurvekja gamla sovétið í sinni verstu mynd og tístudúkkurnar úr ýmsum flokkum og flokksbrotum sem hafa fylgt ríkisstjórninni í þessum málum ættu alvarlega að hugsa um hvaða sporgöngu þær eru að ganga, virðulegi forseti. Þessar aðgerðir munu þrengja allt í vinnusköpun og sveigjanleika. Engin hreyfing getur orðið og ekkert svigrúm til að gera markvisst átak í þróunarvinnu, markaðssetningu, í endurnýjum, í öryggismálum sjómanna. Á undanförnum árum, fyrir ekki svo mörgum árum, hafa 20–30 sjómenn farist á hafinu við Ísland. Með átaki í þessum efnum hefur þetta snarminnkað sem betur fer en nú á að slaka á klónni aftur og taka allt sem kostar peninga, sem kostar að viðhalda öryggi og vírunum strekktum og heilum og það er hæstv. ríkisstjórn Íslands sem hefur frumkvæði að þessum ósóma.