Veiðigjöld

Mánudaginn 18. júní 2012, kl. 18:43:33 (13907)


140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Til að halda örlítið áfram þeirri guðfræðilegu umræðu sem var hluti af máli okkar beggja held ég að drottinn almáttugur sé hvorki vinstri sinnaður né hægri sinnaður. Ég held að hann horfi inn í hjörtu mannanna og þar sem hann sér réttlæti hefur hann velþóknun á og þeim sem þau hjörtu eiga.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði í fyrra svari sínu um átökin milli stjórnar og stjórnarandstöðu, þá segi ég: Mér er alveg sama með hvaða hætti við komumst að niðurstöðu ef hún er þokkaleg. Mér heyrðist á hv. þingmanni að hann teldi þetta ekki vera fjarri lagi. En þannig er hið lýðræðislega samfélag, stjórnarliði kemur fram með frumvarp sem hv. stjórnarandstaða er mjög andsnúin. Hún leggur fram sín rök, notar þau meðul sem þingskapalög veita henni og ég hef ekkert á móti því. Úr þeim átökum kemur fram niðurstaða, sem mér heyrist varðandi þetta tiltekna frumvarp að hv. þingmanni finnist kannski ekki algalin, ekki víðs fjarri því sem rétt væri. Hann, einn þingmanna sem hefur verið spurður, nefnir að vísu tölu. Hann telur að veiðigjaldið ætti að vera lægra en 11 milljarðar.

Nú er það svo að eðli þessa veiðigjalds er þannig að það sveiflast eftir árferði. Ég er algerlega ósammála hv. þingmanni og þeim þingmanni sem talaði á undan, hv. þm. Árna Johnsen, að það sé einhver goðgá að taka veiðigjald við þær aðstæður sem nú ríkja þar sem framlegð í greininni er meiri en 70 milljarðar og fyrir liggur, miðað við allar spár sem við höfum séð núna og rannsóknir á ástandi sjávar, að verði sennilega yfir 80 milljarðar á næsta ári. Ég tel að það sé engin goðgá, það leggi greinina fráleitt á hliðina. Íslenskur sjávarútvegur er ákaflega vel rekinn. Það getur vel verið að þetta leiði til einhverra breytinga á honum en hann hefur alltaf sýnt að hann hefur getað aðlagað rekstur sinn að breyttum aðstæðum og breyttum stjórnkerfum.