Veiðigjöld

Mánudaginn 18. júní 2012, kl. 18:45:46 (13908)


140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra er klókur maður. Það er grundvallaratriði í allri þessari umræðu að búið er að henda þeim miklu breytingum sem gera átti á fiskveiðistjórnarkerfinu, breytingum sem hefðu dregið mjög úr arðsemi greinarinnar. Það sem ég er að reyna að segja er að ef greinin býr við öryggi, ef hún býr við það að arður myndast í fiskveiðunum þ.e. auðlindarenta, þá er hægt að heimta veiðigjald af greininni.

Það sem var lagt upp með var að eyða auðlindarentunni á altari offjárfestingar og ofmönnunar og síðan átti að skattleggja um 24 milljarða. Það er það sem var lagt upp með. (PHB: Og kaupa atkvæði.) Í dag er lagt til að í veiðigjald verði teknir 12,6–12,7 milljarðar nettó, það gjald tel ég vera allt of hátt. Ég tel að við þurfum að helminga það að minnsta kosti til að komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu.