Veiðigjöld

Mánudaginn 18. júní 2012, kl. 18:58:36 (13914)


140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:58]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Þótt hæstv. ríkisstjórn vilji setja eitt öflugasta fyrirtæki landsins í sjávarútvegi, Síldarvinnsluna á Neskaupstað, í spennitreyju þá setja þær aðgerðir fyrirtækið ekki á hausinn enda eitt öflugasta og besta fyrirtæki landsins í sjávarútvegi. En það hamlar þróun og uppbyggingu, það dregur úr vinnu, það dregur úr endurnýjun, það dregur úr markaðssetningu sem er til aukinna verðmæta. Það er mergurinn málsins. Það er verið að blóðmjólka mjólkurkúna sjálfa. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Þess vegna þarf að bregðast við og takast á við þennan vanda, þau móðuharðindi sem hæstv. ríkisstjórn er núna í ranni íslensku þjóðarinnar, af manna völdum, ekki eldgosum og óáran.

Þetta er staðan og það er alveg sama hvar menn ber niður. Sama er í Bolungarvík, þetta setur menn þar í spennitreyju, hægir á öllu, dregur úr framgangi og uppbyggingu, þróun sem hefur skilað miklum árangri fyrir þjóðina í heild, stórauknum tekjum af atvinnugreininni til fólks og þjóðarinnar sjálfrar.

Það sama er á Hellissandi. Þar er verið að sigla á fyrirtæki sem hafa verið burðarás eins og víða annars staðar á landsbyggðinni í atvinnusköpun og stöðu byggða um allt land. Það er verið að keyra á þau af hálfu ríkisstjórnarinnar með olnbogum hæstv. forsætisráðherra og engu viti heldur því sem ekki er hægt að kalla annað, virðulegi forseti, en heimskra manna hátt. Það er nú svo og það er ekki gott hvorki til lands né sjávar í fiskveiðum eða landbúnaði að vinna á þeim nótum.

Á Eskifirði kölluðu menn það sem væri að gerast í skjóli íslensku ríkisstjórnarinnar dauða og djöful. Það eru engin smáorð notuð. Þetta er það sem rætt er meðal fólksins í landinu, á bryggjum og í búðum þar sem fólk veit að sjávarútvegurinn skiptir máli og að það verður að rækta hann eins og annað sem skilar árangri í þjóðfélagi okkar og er grundvöllur velferðarsamfélags.

Það gengur ekki þegar menn stilla þessu upp að draga alla hvatningu úr greininni, alla hvatningu frá því að menn vilji taka þátt í uppbyggingu sjávarútvegs og leggja vinnu sína, fjármagn og líf í þessa atvinnugrein sem skiptir Ísland öllu máli. Þess vegna þurfum við að stemma stigu við þessu. Það er alveg klárt mál að það verður verkefni okkar á næstu missirum að berjast gegn þessum vilja og stefnu ríkisstjórnarinnar, gegn valdníðslu og nauðung, berjast með oddi og egg til síðasta blóðdropa. Það er bara þannig. Það eru bara tveir flokkar í landinu sem munu gera það, það eru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn. Hinir láta velta sér upp úr raspi Evrópusambandsins og steikja sig í lélegu smjörlíki sem er bragðlaust og skilar engu. Það veit hæstv. utanríkisráðherra manna best en þegir þunnu hljóði. Það er mikilvægt, virðulegi forseti, að menn snúi vörn í sókn.

Það er alveg sama með Gunnvöru á Ísafirði, burðarfyrirtækið þar í fiskvinnslu. Það er keyrt á það út og suður og þar kveljast menn af því að þeir vita fyrir fram að þetta gengur ekki upp. Hlustar hæstv. ríkisstjórn á þessa menn? Nei, nei, þeir eru langt úti á landi, þeir eru svo fjarri vettvangi, þeir eru svo fjarri stjórnarsetrinu í Reykjavík að ríkisstjórnina varðar ekkert um þá. Þetta eru bara einhverjir aðskotahlutir í landslaginu af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Það má halda áfram. Samherji, eitt magnaðasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins er með rúmlega 600 manns í vinnu, 350 í fiskvinnslu á Dalvík og Akureyri og nær 300 sjómenn. Þetta setur ekki Samherja á hausinn, en það þrengir allt. Allt umhverfið mun finna fyrir því, það verður samdráttur í atvinnu á stórum hluta Norðurlands vegna þessa, það verður samdráttur hjá öllum birgjum vegna þess að það dregur úr öllu sem heitir eðlileg nýting og uppbygging. Þetta lendir því fyrst og fremst á fólkinu sjálfu, venjulegu fólki í byggðum landsins, fjölskyldufólki sem berst fyrir sínu frá degi til dags.

Það er alveg það sama í Höfn í Hornafirði. [Kliður í þingsal.] Nú vil ég biðja hæstv. forseta að þagga niður í hæstv. utanríkisráðherra sem er gjammandi í síma í dyragættinni svo að maður getur varla talað.

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn og ráðherra í hliðarsal að hafa hljóð.)

Þökk fyrir, hæstv. forseti. Það er sama sagan hvar sem borið er niður, Akureyri, Dalvík, Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjum. Eitt öflugasta fyrirtækið í útvegi og vinnslu í Eyjum stefnir beint í þrot ef veruleikinn nálægt 15 milljörðum verður varanlegur. Ísfélag Vestmannaeyja sem er eitt af öflugustu og bestu fyrirtækjum landsins fer ekki í þrot en verður sett í það hlutverk að þurfa að greiða upphæð sem samsvarar að byggja nýja Heimaey á fjögurra ára fresti fyrir ríkissjóð, ekki fyrir rekstur fyrirtækisins eða uppbyggingu heldur fyrir ríkissjóð. Heimaey er fyrsta nýsmíðaða uppsjávarskipið í áratugi. Það er lykilatriði að smíða ný uppsjávarskip, sérstaklega vegna þess að olíukostnaður á gömlu skipunum er óheyrilegur þar sem öllu er ruglað saman, hvort sem um er að ræða veiðar á síld, kolmunna eða loðnu, enda mikill munur á rekstrarþáttum og kostnaðarþáttum. Nei, ríkisstjórnina varðar ekkert um það. Hún segir bara: Tökum þá, tökum þetta af þeim! Engin rök, engin skynsemi, ekkert verksvit, engin reynsla. Þetta eigum við Íslendingar að búa við í nútímaþjóðfélagi.

Grindavík. Þar er öflug verkstöð. Alveg sama málið. Þar er hert að stórum fyrirtækjum sem munu lifa af. Þau minni munu falla en það er hert að stóru fyrirtækjunum þannig að þau verða að setja allt í bið, allt í kælingu, alla eðlilega endurnýjun, fjölgun skipa, fjölgun starfa, aukningu í vinnslu, markaðssetningu og fullvinnslu og draga þannig saman seglin. Hver græðir á því? Það græðir enginn á því því að allt sem ríkisstjórnin er að gera er tap fyrir ríkissjóð, stórtap fyrir ríkissjóð.

Það er verið að þjóna geðþóttaákvörðunum hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar sem gefa hreinlega skít í allt sem heitir sjávarútvegur, líklega af því að það er slorlykt af borðinu. Þetta fína fólk vill ekki og þolir ekki slorlykt. Það ætti kannski að brjóta odd af oflæti sínu og fara um borð í báta, taka spjall í lúkarnum eða í borðsalnum, ræða við sjómenn, ræða við menn sem eru í þessari starfsgrein um allt land og reyna að skilja um hvað þetta snýst. En það gera ekki nýliðarnir í röðum stjórnarsinna á Alþingi. Þeir eru eins og nýburar í verkefnum sem skipta miklu máli en þeir hafa ekki haft tækifæri til að kynna sér til hlítar.

Valdnýting er ekki góð. Við eigum ekki að byggja samfélag okkar á valdnýtingu. Við sem berjumst fyrir stöðu Íslands munum rétta hlut Íslendinga innan árs. Menn verða að þreyja þorrann, berja höfðinu við steininn og muna að dropinn holar steininn. (Forseti hringir.) Þannig munum við vinna, ekki gefa tommu eftir.