140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[20:26]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um hvort við eigum að þiggja aðlögunarfé frá Evrópusambandinu til að aðlaga íslenska stjórnsýslu og íslenskt stofnanakerfi Evrópusambandinu í aðlögunarferlinu. Þetta gengur þvert á það sem gert var ráð fyrir þegar það óheillaspor var stigið að senda umsókn um aðild að Evrópusambandinu á sínum tíma. Þá var gert ráð fyrir að ferlið yrði rekið á sjálfstæðum íslenskum forsendum en að við þyrftum ekki að fá eitthvert þróunarfé frá Evrópusambandinu til að aðlaga okkur inn í sambandið á aðlögunartímanum.

Ég minni líka á að það að taka við styrkjum eins og hér er lagt til stríðir gegn samþykktum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég hef ávallt barist gegn þessu, geri enn og segi nei, frú forseti.