Veiðigjöld

Þriðjudaginn 19. júní 2012, kl. 22:03:19 (14141)


140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Út af fyrir sig skil ég að formaður Sjálfstæðisflokksins telji gjaldið áhyggjuefni ef hann trúir því að veiðigjöld upp á 13–13,5 milljarða kr. verði svipuð tala og hagnaður allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi á síðasta ári. (Gripið fram í: Eftir skatta.) Það fæ ég ekki til að ganga upp, (Gripið fram í: Eftir skatta.) samanber það að sjávarútvegsfyrirtæki munu greiða 4–5 milljarða í tekjuskatt og það greiða einungis þau sem ekki eiga uppsafnað tap enda kemur það illa heim við þá staðreynd að fjármunamyndunin, framleiðni í greininni, er á bilinu 75–80 milljarðar kr. Ég held að í því samhengi sé gjaldtakan hófleg.

Meira er þó um vert að mínu mati að hér eru að verða tímamót í sambandi við auðlindalöggjöf á Íslandi þar sem menn horfa til þess að þjóðin sem eigandi þessarar sameiginlegu auðlindar fái sanngjarna hlutdeild í rentunni.

Það má endalaust deila um tölur en gjarnan hefði ég viljað að meiri orka færi í það í umræðunni að ræða þau grundvallaratriði sem skipta okkur (Forseti hringir.) sem þjóð, ríka að sameiginlegum auðlindum, auðvitað miklu máli til framtíðar litið.