Veiðigjöld

Þriðjudaginn 19. júní 2012, kl. 22:04:56 (14142)


140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:04]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er eðlilegt að sjávarútvegurinn taki sanngjarnan og eðlilegan þátt í samfélagsþjónustunni og leggi fjármagn til samfélagsins. Ég hef hins vegar áhyggjur af sjávarbyggðunum, ég hef áhyggjur af því fólki sem treystir á útgerð og fiskvinnslu. Áhrif þessa frumvarps hafa ekki verið metin hvað það varðar.

Í tillögunni er lagt til að hluta af veiðigjöldum verði ráðstafað til sjávarbyggðanna, að 50% fari til ríkisins, 40% til sjávarbyggðanna, 10% til þróunar- og rannsóknastarfs í sjávarútvegi. Ég bendi á að þetta er í samræmi við það frumvarp sem var samþykkt af ríkisstjórninni fyrir ári að lagt yrði fram á Alþingi. Þetta er líka í samræmi við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við viljum treysta og standa vörð um sjávarbyggðirnar og það er mjög mikilvægt að við gerum það líka með löggjöfinni. Því er lagt til að hluti af veiðigjaldinu renni til sjávarbyggðanna og um það snýst þessi tillaga, frú forseti.