Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 14:46:20 (402)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti vill gera athugasemdir við það þegar beðið er um andsvar áður en ræða er hafin. Ræða verður að hefjast áður en menn geta óskað eftir andsvari. Hef ég nú ræðu mína.

Frú forseti. Forsætisnefnd Alþingis leggur fram á þskj. 3 skýrslu um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Meiri hluti Alþingis samþykkti þann 24. mars sl. ályktun um skipun stjórnlagaráðs sem hefði það verkefni að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Í ályktun Alþingis um skipun stjórnlagaráðs var gert ráð fyrir að ráðið skilaði tillögum sínum til Alþingis fyrir lok júní 2011. Jafnframt var stjórnlagaráði heimilt að óska eftir því við forseta Alþingis og forsætisnefnd að starfstími ráðsins yrði framlengdur um allt að einn mánuð.

Með bréfi, dagsettu 20. maí 2011, óskaði ráðið eftir framlengingu á starfstíma sínum og á fundi forsætisnefndar 26. maí var fallist á erindi ráðsins. Stjórnlagaráð afhenti síðan forseta Alþingis tillögur sínar 29. júlí sl. Á fundi forsætisnefndar 24. ágúst sl. var ákveðið að leggja tillögur stjórnlagaráðs fyrir Alþingi í formi skýrslu þar sem með því fælist ekki efnisleg afstaða til tillagnanna eða einstakra þátta þeirra af hálfu þeirra sem flyttu málið.

Í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir eru lagðar fram tillögur stjórnlagaráðs ásamt skýringum sem þeim fylgja. Jafnframt er í skýrslunni gerð grein fyrir aðdraganda að skipun stjórnlagaráðs, störfum ráðsins og áætlun um þinglega meðferð málsins. Ég mun í máli mínu víkja sérstaklega að hinni þinglegu meðferð málsins.

Ég vil fyrst nefna að samkvæmt gildandi stjórnarskrá er það Alþingi eitt sem getur gert breytingar á stjórnarskrá landsins. Alþingi getur því samkvæmt stjórnarskránni ekki framselt löggjafarvald sitt með bindandi hætti og var stjórnlagaráði í samræmi við ákvæði stjórnarskrár falið ráðgefandi hlutverk við Alþingi eins og segir í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs. Ljóst er því að um meðferð málsins á Alþingi fer samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis og nánari samþykktum sem Alþingi kann að gera um málsmeðferðina.

Það er tillaga forsætisnefndar að þegar umræðu um skýrsluna lýkur verði henni vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til frekari meðferðar. Vinna þingsins við málið verður því einkum á hendi þessarar nýju fastanefndar Alþingis. Venja er að þegar máli hefur verið vísað til fastanefndar sé vinna málsins á forræði nefndarinnar. Nefndin mun væntanlega gera verkáætlun um athugun málsins í samræmi við ný vinnubrögð nefnda.

Samkvæmt nýjum ákvæðum þingskapa er einnig gert ráð fyrir því að hver og einn nefndarmaður verði virkari í nefndarstarfinu en verið hefur þar sem meginþungi alls nefndarstarfs hefur hvílt á herðum formanns og hann verið allt í öllu í nefndarstarfinu. Hér á ég við þau ákvæði að framsögumenn séu settir til verka um leið og máli er vísað til nefndar. Ég tel að þetta kerfi geti virkað vel í stórum málum eins og því sem hér er á ferðinni, að nefndarmenn skipti einstökum hlutum þeirra á milli sín. Ég gæti þannig séð það fyrir mér að nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skiptu allir með sér verkum við yfirferð stjórnarskrármálsins þannig að hver og einn þeirra bæri ábyrgð á sérstökum köflum stjórnarskrárfrumvarpsins, settu sig þá sérstaklega vel inn í þá þætti og bæru ábyrgð á því undir yfirstjórn formanns nefndarinnar að vel og faglega væri fjallað um þann þátt, álita sérfræðinga leitað sem og almennings o.s.frv. Þannig bæri hver og einn nefndarmaður sérstaka ábyrgð gagnvart nefndinni og hefði hlutverk við afgreiðslu málsins í fyllingu tímans.

Ég vil leyfa mér að minna á að ég hef áður lagt opinberlega á það ríka áherslu að mikilvægt sé að umfjöllun nefndarinnar verði eins ítarleg og opin og framast er kostur. Að gefnu tilefni minni ég á að bæði stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð hafa lokið störfum. Engu að síður hef ég lagt ríka áherslu á það og nefnt opinberlega að æskilegt sé að nefndin kalli til fundar við sig ýmsa þá sem unnið hafa að málinu á fyrri stigum, þ.e. ef þeir hafa áhuga á því að koma að athugasemdum, útskýringum eða sinna annarri vinnslu málsins í nefndinni. Sérstaklega tel ég rétt að kalla fyrir nefndina fulltrúa úr stjórnlagaráði enda hafa þeir lýst yfir áhuga á því að koma að áframhaldandi vinnslu málsins.

Einnig er mikilvægt að nefndin kalli fyrir sig sérfræðinga í stjórnskipunarrétti og aðra þá sem nefndin telur gagnlegt að hafa samráð við um meðferð málsins. Þá hef ég einnig hvatt til þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leiti til almennings með auglýsingu um umsagnir líkt og gert var við breytingar á stjórnarskrá á þinginu 1994–1995 þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður í heild sinni.

Ég tel einnig að sú umræða sem nú er að hefjast í þinginu um tillögur stjórnlagaráðs eigi eftir að geta verið veigamikið innlegg í vinnu nefndarinnar. Það er því mikilvægt að hér fari fram málefnaleg umræða um tillögurnar þannig að hún megi nýtast nefndinni við frekari vinnslu málsins.

Þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fjallað um tillögur stjórnlagaráðs kemur það í hennar hlut að gera tillögu til Alþingis um afgreiðslu málsins og nánari meðferð þess, m.a. hvernig standa skuli að flutningi frumvarps um breytingar á stjórnarskrá og hvernig háttað verði aðkomu almennings að endanlegri afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. Alþingi hefur þegar ákveðið að tillögur stjórnlagaráðs fari ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umfjöllun þingsins um tillögurnar hefst og vísa ég í því sambandi til atkvæðagreiðslu um það efni þegar ályktun um skipun stjórnlagaráðs var samþykkt 24. mars sl. Ýmsar leiðir koma þó til greina til að tryggja að almenningur fái tækifæri til að segja álit sitt á stjórnarskrárbreytingunum áður en þær öðlast gildi.

Það er orðin föst venja á Alþingi að breytingar á stjórnarskrá eru ekki afgreiddar fyrr en við lok kjörtímabils. Það byggist á því að þegar Alþingi hefur samþykkt breytingar á stjórnarskrá ber að rjúfa Alþingi og stofna til almennra þingkosninga. Í ljósi þessa er þess varla að vænta að frumvarp til breytinga á stjórnarskrá Íslands verði tekið til lokameðferðar á Alþingi fyrr en vorið 2013 þegar kjörtímabilinu lýkur. Þetta gefur hins vegar Alþingi tækifæri til að fjalla af vandvirkni um tillögur stjórnlagaráðs. Ég hvet því hv. alþingismenn til að nota vel næsta eina og hálfa árið til að ljúka vinnu við stjórnarskrá sem við Íslendingar verðum ekki aðeins sáttir við, heldur stoltir af.