Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 14:55:12 (403)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[14:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta Alþingis fyrir framsögu í þessu afar einkennilega máli. Hér stöndum við þingmenn, það er haust 2011 en boðaðar stjórnarskrárbreytingar eru að vori 2013 þegar fyrirhugaðar eru kosningar til Alþingis.

Ég lýsi því yfir að sú vinna sem verið er að setja af stað í þinginu og í nýrri stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er þar með til einskis orðin vegna þess að frumvarpið er ekki hægt að afgreiða fyrr en búið er að boða til þingkosninga. Ég var farin að halda að við tækjum þetta fyrir á þessu þingi og að ríkisstjórnin ætlaði að boða til þingkosninga fyrr en ætla mætti. Á bls. 224 í þessu riti þar sem talað er um minnisblað forseta Alþingis til forsætisnefndar um þinglega meðferð segir, með leyfi forseta:

„Skýrsla forsætisnefndar verði lögð fram við upphaf nýs þings 1. okt. nk. Forseti telur ekki heppilegt að leggja slíka skýrslu fram á septemberfundum þingsins þar sem þingmálið félli niður við upphaf nýs þings 1. okt. auk þess sem varla gæfist þá sá tími til umræðu um málið sem þörf er á.“

Með þessum ummælum sínum hefur forseti Alþingis beinlínis sjálfur bent á að hér sé verið að boða til kosninga á þessum þingvetri með þeim rökum að ekki hafi verið hægt að taka málið inn á septemberþinginu. Mig langar því til að spyrja hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttir: Er verið að boða til kosninga með því að leggja þetta mál fram núna vegna þessara ákvæða sem hún taldi upp um þingkosningar? Eins og kom fram í upphafi máls þingmannsins getur Alþingi eitt breytt stjórnarskrá og enginn annar.