Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 15:06:59 (409)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[15:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Stjórnarskrárbreytingar eru án efa eitt mikilvægasta verkefnið sem Alþingi og alþingismönnum er falið miðað við stjórnskipun Íslands. Sennilega er hér um að ræða allra mikilvægasta verkefnið enda hljóta stjórnarskrárbreytingar að jafnaði að standa mun lengur en önnur verk okkar. Stjórnarskrá felur í sér grundvallarlöggjöf, er grundvöllur annarra laga sem sett eru hér og á að jafnaði að geta staðið af sér sveiflur á hinu pólitíska sviði, hvort þessi eða hinn flokkurinn er í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu, hvernig meiri hlutinn er samsettur hér á þingi. Stjórnarskrá er með öðrum orðum meira langtímaverkefni en flest annað sem við fáumst við hér í þessum sölum.

Það liggur fyrir auðvitað að engar breytingar verða gerðar á stjórnarskrá, hvorki einstökum ákvæðum né stjórnarskránni í heild, nema fylgt sé þeim reglum sem hún sjálf kveður á um. Við þingmenn erum kjörnir til að fjalla um slíkar breytingar og berum ábyrgð á niðurstöðunni. Þessi veruleiki hlýtur að móta alla umfjöllun okkar á þingi um tillögur stjórnlagaráðs og eftir atvikum aðrar stjórnarskrárbreytingar. Hér er um að ræða verkefni sem okkur er falið samkvæmt stjórnarskránni, og þeirri ábyrgð getum við ekki vísað annað.

Starf stjórnlagaráðs og tillögur þess eru liður í ákveðnu ferli sem stendur yfir í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þessar tillögur eru hvorki upphaf né endir þeirrar vinnu. Ég ætla ekki að staldra lengi við fortíðina eða forsöguna en verð þó að minna á að margir áfangar á þessari leið í þessu ferli hafa verið afar umdeildir. Undanfarin missiri hafa reglulega hér á þingi átt sér stað deilur um aðferðina við stjórnarskrárbreytingar og satt að segja hefur mikill tími og mikil orka farið í ýmiss konar tilraunastarfsemi í þeim efnum. Þessi umræða um aðferðir hefur skyggt nokkuð á umræðu um efnisatriði stjórnarskrárinnar, þ.e. hverju nákvæmlega við viljum breyta, en fyrr en síðar hljótum við hér í þinginu að komast á þann stað.

Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að staldra lengi við fortíðina en get þó ekki látið hjá líða að nefna að tilraunastarfsemin sem ég nefndi leiddi meðal annars til vandræðanna í kringum kosningu til svonefnds stjórnlagaþings sem einungis rúmlega þriðjungur kjósenda tók þátt í og var þar að auki svo gölluð að Hæstiréttur gat ekki annað en ógilt hana. Eftir þetta tvíþætta klúður sem birtist annars vegar í lélegustu kosningaþátttöku hérlendis í almennum kosningum í 90 ár og síðan framkvæmd sem varð að ógilda lét meiri hluti Alþingis sér svo sæma að láta eins og ekkert hefði í skorist, skipti bara um nafn á stjórnlagaþinginu en lét fulltrúana, umgjörðina og verkefnin haldast óbreytt. Þannig kaus þingið, Alþingi, í raun að hafa niðurstöðu æðsta dómstóls landsins að engu þrátt fyrir að þessum sama dómstól væri með lögum falið að skera úr um gildi kosningarinnar sem í hlut átti. Mér er til efs að um sambærileg vinnubrögð hafi verið að ræða í vestrænu lýðræðisríki á síðari árum, en nóg um það að sinni.

Hvað sem þessari forsögu líður höfum við nú í höndum tillögur 25 manna nefndar sem meiri hluti Alþingis fól ákveðið verkefni. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim sem að því stóðu, bæði stjórnlagaráðsfulltrúum, starfsmönnum og öðrum sem að þessu komu fyrir störf þeirra. Ég held að allir sem hlut áttu að málum hafi lagt sig fram þó að við getum verið ósammála um ákveðin atriði sem varða niðurstöðurnar. Þeim eru engu að síður færðar þakkir fyrir störfin.

Þessar tillögur eru ræddar hér í dag og eins og hæstv. forseti gerði grein fyrir áðan munu þær eftir umræðuna hér koma til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Það má ætla, eins og hæstv. forseti reifaði hér, að úr því nefndarstarfi geti komið eiginlegt frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem síðan á eftir að fá meðferð í þinginu samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár og þingskapa. Eins og hæstv. forseti greindi líka frá má gera ráð fyrir því að óbreyttu að sú málsmeðferð standi fram á árið 2013 þegar núverandi kjörtímabili lýkur og raunar þegar nýtt þing hefur tekið afstöðu til breytinganna.

Burt séð frá þessari málsmeðferð er verkefnið hér í dag að fjalla um tillögur stjórnlagaráðs. Hæstv. forseti nefndi áðan að hún óskaði eftir málefnalegri umræðu um þessa tillögu og skal ég ekki víkjast undan því. Ég verð þó að geta þess að umfjöllun um einstakar greinar eða einstaka efnisþætti málsins verður eðli málsins samkvæmt mjög takmörkuð í ljósi þess tíma sem við höfum til umræðunnar. Það er í raun og veru ekki hægt að reikna með á þessari stundu ítarlegri umfjöllun um öll þau atriði sem er að finna í tillögum stjórnlagaráðs.

Ráðið tók sér fyrir hendur að breyta að meira eða minna leyti svo til öllum ákvæðum núgildandi stjórnarskrár og bæta fjölmörgum nýjum við. Ég leyfi mér að fullyrða, hæstv. forseti, að afar margar þessara greina í tillögum ráðsins, sem eru 114 og ein til viðbótar til bráðabirgða, krefjast ítarlegar umfjöllunar, skoðanaskipta og rökræðna. Það bíður því fyrst í stað umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og síðan í kjölfarið hér í þingsal að fara efnislega ofan í hverja grein fyrir sig og ná þar niðurstöðu bæði hvað varðar inntak og framsetningu.

Ég deili þeirri skoðun með hæstv. forseta að það sé afar mikilvægt að samhliða umfjöllun á vettvangi Alþingis eigi sér stað lifandi umræða úti í þjóðfélaginu á vettvangi fjölmiðla, meðal fræðimanna og almennra borgara um þessar tillögur og ég leyfi mér að segja raunar aðrar tillögur sem fram hafa komið um breytingar á stjórnarskrá. Ég ætla við þessa umræðu ekki að draga neina dul á það að ég er gagnrýninn á ýmislegt í tillögum stjórnlagaráðs sem hér hafa verið kynntar. Með þessu er ég alls ekki að segja að ég leggist gegn öllu sem þarna er að finna, langt í frá. Ég tel að ýmsar tillögur ráðsins séu prýðilegar og geti verið grunnur að farsælum breytingum. En ég er gagnrýninn á mörg önnur atriði, í sumum tilvikum út frá innihaldinu, efnisþáttum, og í öðrum tilvikum út frá framsetningu.

Ég vil áður en lengra er haldið taka fram að ég hef alltaf haft ákveðnar efasemdir um þau sjónarmið að þörf sé á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar eins og hér er lagt upp með. Ég hef talað fyrir og tekið þátt í vinnu sem miðar að því að ákveðnir kaflar og ákveðnar greinar verði endurskoðuð. Mér finnst fyrst og fremst ástæða til að menn einbeiti sér að þeim atriðum sem valdið hafa deilum og óvissu í framkvæmd, svo sem að skýra og skerpa valdmörk milli handhafa ríkisvaldsins, færa orðalag til samræmis við veruleikann, eins og í sambandi við stöðu forsetans, og eftir atvikum að bæta við nýjum ákvæðum eftir því sem þörf er og nokkur samstaða getur náðst um.

Ég nefni í því sambandi ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur um auðlindir og um tengsl við önnur ríki. Í öllum þessum tilvikum er hægt að færa fram ágæt rök fyrir setningu nýrra ákvæða þó að skoðanir geti verið skiptar um útfærsluna. Mér finnst hins vegar, og ég verð að láta þess getið, hæstv. forseti, ástæðulaust að hringla til með ákvæði eða kafla sem reynst hafa vel og engum vandræðum valdið. Ég hef þar af leiðandi nokkrar áhyggjur af þeirri nálgun stjórnlagaráðs að leggja til breytingar á nærfellt öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það mótast auðvitað af þeirri grundvallarskoðun minni að stjórnarskrá beri að breyta hægt og varlega. Þegar verið er að breyta öllu í einu er eðli málsins samkvæmt ekki unnt að fara jafn vel og ítarlega yfir hverja breytingu fyrir sig, vega hana og meta og átta sig á afleiðingunum. Nálgun stjórnlagaráðs eykur því slysahættuna ef svo má að orði komast.

Í mörgum tilvikum er raunar verið að breyta orðalagi ákvæða án þess að ætlunin sé að breyta inntaki þeirra, a.m.k. ekki svo neinu nemi. Ég leyfi mér að gera athugasemdir við það, bendi bara á þá staðreynd að breytingar á orðalagi ákvæðanna einar og sér geta skapað ákveðna óvissu um réttarstöðu á viðkomandi sviði, gildi ýmissa laga og stjórnvaldsfyrirmæla og fordæmisgildi dóma. Þar með geta breytingar af þessu tagi leitt til alls konar málaferla, jafnvel alveg að óþörfu.

Eins og hv. þingmönnum er ljóst er afstaða mín þannig varfærin í sambandi við stjórnarskrárbreytingar. Það má líka orða það svo að hún sé íhaldssöm í þeim skilningi að ég vil ekki breyta breytinganna vegna og þar sem þörf er á breytingum er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að vanda til verka, meta eins og hægt er afleiðingar breytinganna, liggja yfir orðalagi svo ekki sé hætta á því að það valdi misskilningi við hvað er átt, að gæta innbyrðis samræmis og svo má lengi telja. Svona varfærin eða íhaldssöm afstaða til stjórnarskrárbreytinga er raunar að kalla má viðtekið viðhorf í flestum þróuðum lýðræðisríkjum. Ég get tekið sem dæmi þingmönnum til umhugsunar að nú um stundir eru Norðmenn að vinna að breytingum á mannréttindakafla stjórnarskrár sinnar, aðeins mannréttindakaflanum, og ætla sér nokkur ár í það verkefni.

Svo ég víki aftur að tillögunum og þeirri nálgun sem við þurfum að mínu mati að hafa þegar við fjöllum um þær má auðvitað segja að það megi nálgast tillögurnar út frá nokkrum mismunandi sjónarhornum. Það má gera það frá heimspekilegum forsendum, pólitískum, lögfræðilegum, jafnvel lagatæknilegum, og ég held að í störfum okkar í þinginu ættum við að hafa öll þessi sjónarhorn til hliðsjónar, við ættum að horfa á tillögurnar út frá þeim öllum. Ég held að það sé nauðsynlegt að við gerum það, horfum á þær gagnrýnum augum, því að ég held að annars værum við í raun og veru ekki að sinna því verkefni sem okkur er falið.

Ef ég skýri aðeins nánar hvað ég meina með þessu þurfum við auðvitað að ræða stjórnarskrártillögurnar út frá grundvallarspurningunni um það hvað eigi yfir höfuð að vera í stjórnarskrá og hvað ekki. Þegar við nálgumst verkefnið þurfum við að átta okkur á því hvaða hlutverki stjórnarskrá á að þjóna og í kjölfarið hvaða reglur eigi nákvæmlega þar heima og ekki annars staðar, t.d. í almennum lögum. Það er hægt að fylla stjórnarskrá af ákvæðum sem eiga í raun og veru miklu frekar heima í almennum lögum þannig að þarna þarf að velja og hafna.

Við lestur tillagna stjórnlagaráðs virðist mér þetta ekki alltaf ljóst. Þar er í sumum tilvikum að finna mjög almenn markmið, nokkurs konar stefnuyfirlýsingar á einhverjum sviðum þar sem löggjafanum er ætlað afar mikið svigrúm við útfærsluna. Annars staðar er að finna nokkuð skýrar og skilgreindar reglur, sums staðar reyndar svo nákvæmlega útfærðar að þær ættu jafnvel fremur heima í almennum lögum. Þetta er sem sagt sjónarhorn sem við þurfum að nota þegar við skoðum þessar tillögur.

Í öðru lagi má nálgast tillögurnar út frá ákveðnum grundvallarspurningum sem við getum kallað hugmyndafræðilegar, svo sem hversu mikið hlutverk ríkisvaldsins eigi að vera í samfélaginu o.s.frv. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta að sinni, ég vil bara taka fram að ég held að í góðri stjórnarskrá verði að vera jafnvægi, þannig jafnvægi að ákvæði hennar geti haldið gildi sínu hvort sem við völd er ríkisstjórn sem hallast til hægri eða vinstri og hvernig sem þingmeirihlutinn er settur saman.

Í þriðja lagi felast í tillögunum fjölmargar einstakar afmarkaðar breytingar sem krefjast þess að við tökum efnislega afstöðu til þeirra. Þar er um pólitískar spurningar að ræða, ekki endilega flokkspólitískar, í sumum tilvikum liggja skiptar skoðanir eftir einhverjum allt öðrum línum en flokkspólitískum og þarna er ekki endilega um að ræða spurningar sem snerta hugmyndafræði hægri eða vinstri en það eru pólitískar spurningar engu að síður. Þar get ég nefnt sem dæmi spurningar um stöðu forsetaembættisins; viljum við auka völd forseta, draga úr þeim eða einfaldlega skýra betur þá stöðu sem embættið er í í dag? Af sama toga eru spurningar um valdmörk framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag, þjóðaratkvæðagreiðslur, kirkjuskipan, eignarhald og nýtingu auðlinda og framsal ríkisvalds, fullveldis, til alþjóðlegra stofnana. Þetta eru dæmi um efnisbreytingar sem felast í tillögum stjórnlagaráðs og við þurfum að taka afstöðu til. Hver sem skoðun okkar er á þessum atriðum blasir við að hér er um margar veigamiklar breytingar að ræða sem krefjast vandlegrar skoðunar.

Í fjórða lagi má svo skoða tillögurnar út frá lagatæknilegum forsendum. Það þarf að búa þannig um hnútana að niðurstaðan, hver sem hún verður efnislega, verði þannig fram sett að hún sé nothæf, að útkoman verði skýr og skiljanleg, að ekki leiki vafi á um það hvaða breytingar raunverulega er verið að gera, að ekki sé ósamræmi milli einstakra ákvæða, að þau séu framkvæmanleg o.s.frv. Um leið þarf auðvitað að átta sig á því hvaða áhrif einstakar breytingar hafa, svo sem á lagasetningu og réttarframkvæmd. Í þessu samhengi finnst mér ástæða til að segja að í tillögum stjórnlagaráðs eru fjölmörg atriði sem augljóslega þarfnast nánari skoðunar, kalla á frekari skýringar og hugsanlega breytingar á framsetningu. Ég ætla að nefna nokkur dæmi, nánast af handahófi. Sum eru tiltölulega afmörkuð og einföld og hugsanlega auðleysanleg, önnur varða meiri grundvallarspurningar. Ég tek fram, hæstv. forseti, að þetta er bara nefnt hér í dæmaskyni.

Ég velti til dæmis fyrir mér hvernig menn ætla að láta fara saman hugmyndina um persónukjör sem fjallað er um í 39. gr., persónukjör til Alþingis, og hugmyndina um að varamaður taki sæti bæði forseta Alþingis og þeirra ráðherra sem valdir eru úr hópi þingmanna. Hugmyndin um að varamenn taki sæti í þessum tilvikum gengur auðvitað vel upp í fyrirkomulagi þar sem listakosning er meginreglan en fer í raun á skjön við persónukjörshugmyndina. Ég verð að segja að það er reyndar margt óljóst um útfærslu kosningakerfisins eins og 39. gr. er orðuð en hér þarf að minnsta kosti að staldra við og skoða þetta þannig að ekki skapist misræmi sem geti skapað raunhæf vandamál.

Annað atriði varðar 57. gr. þar sem segir að frumvörp skuli ganga beint til þingnefnda án þess að fram fari 1. umr. eins og við þekkjum hana í dag, og hins vegar 89. gr. um að ráðherrar skuli mæla fyrir lagafrumvörpum. Í greinargerð er talað um að þetta verði nánar útfært í þingsköpum, en mér finnst að þetta þurfi að skýra á sama stað og þessar tvær reglur sem ég get ekki séð annað en að séu misvísandi á sama stað og þær eru settar fram.

Ég nefni líka sem dæmi um svona atriði sem þarf að fara betur ofan í og skýra nánar ákvæði um forsetakjör í 78. gr. Það er talað um forgangsröðun kjósenda án þess að skýrt sé nánar við hvað er átt. Það er greinilega gert ráð fyrir því að það verði verulegar breytingar á reglum um forsetakjör en útfærslan er hins vegar ekki þannig fram sett að það sé hægt að átta sig á því hvert er verið að stefna. Þetta kallar að mínu mati á nánari umræður og skoðun.

Ég bendi líka, hæstv. forseti, á ákveðið ósamræmi í umfjöllun um ráðherra og ríkisstjórn í 86. og 87. gr. samanber líka 95. gr. Annars vegar er talað um fortakslausa ábyrgð ráðherra á málefnum sem undir ráðuneyti þeirra heyra og hins vegar um sameiginlega ákvarðanatöku innan ríkisstjórnar í einhverjum tilvikum og ábyrgð ráðherra í því sambandi. Þarna þarf að skerpa á hugsuninni eða að minnsta kosti framsetningunni að mínu mati. Að hvaða leyti eiga ráðherrar að bera ábyrgð hver fyrir sig og að hvaða leyti á ríkisstjórn að vera fjölskipað stjórnvald? Það má vel vera að þarna megi breyta hlutum en það þarf augljóslega að skýra hlutina að mínu mati.

Ég velti fyrir mér 96. gr. þar sem fjallað er um nýjar reglur um skipun í embætti. Ég er að velta fyrir mér og mér finnst það hvorki ljóst af texta stjórnlagaráðs né skýringum hvort átt er við embætti í hinni þrengri lagalegu merkingu, eins og hún er notuð í lögum í dag, eða hvort átt er við embætti í eitthvað víðtækari skilningi, eins og reyndar er kannski almenn málnotkun. Þarna þarf að skýra hlutina. Það má nefna í leiðinni að talað er um að ráðherra eða önnur stjórnvöld skipi í embætti og ég velti fyrir mér hvaða „önnur stjórnvöld“ það geta verið. Þetta er smáatriði.

97. gr. vekur líka spurningar. Þar er talað um að Alþingi geti stofnað til stofnana, með einföldum meiri hluta væntanlega, en um leið ákveðið að það þurfi aukinn meiri hluta, þ.e. 2/3, til að leggja slíkar stofnanir af. Þetta finnst mér mjög sérkennilegt. Ég er þeirrar skoðunar að ef einfaldur meiri hluti, venjuleg aðferð, dugar til að koma stofnun á fót eigi sama aðferð að gilda við aflagningu hennar. Ég velti fyrir mér dæmum, bæði raunverulegum og ímynduðum, um alls konar sérkennilega stöðu sem gæti komið upp í þessu sambandi þegar naumur þingmeirihluti samþykkir að stofna til einhverra stofnana sem síðan reynist nær ógerlegt að leggja niður nema til komi miklu meiri meiri hluti en sá sem setti stofnunina á fót. Mér finnst ekki samræmi í þessu.

Ég nefni líka, og tek enn fram að ég er að telja bara upp í dæmaskyni, ákvæði um umhverfismál í 35. gr. Þar er farin leið sem mér finnst gölluð og ég geri athugasemdir við þar sem í 3. mgr. er vísað til þess að stjórnvöld séu bundin af meginreglum umhverfisréttar. Þarna er um einhvers konar eyðuákvæði að ræða þar sem ekki er alveg ljóst til hvaða reglna er verið að vísa. Ég tel að þó að til séu fræðiskrif um meginreglur umhverfisréttar og til sé ýmis löggjöf sem fjallar um umhverfisrétt og til séu alþjóðlegir samningar sem fjalla um umhverfisrétt sé þessi tilvísun allt of ómarkviss og ónákvæm til að hún sé tæk í stjórnarskrá.

Svo ég haldi áfram vil ég nefna tvær mikilvægar greinar, 111. og 112. gr., sem fela í sér tvenns konar mismunandi framsal á ríkisvaldi eða fullveldi. Annars vegar er í 111. gr. talað um fullgildingu þjóðréttarsamninga sem felur í sér framsal á ríkisvaldi og hins vegar í 112. gr. um forgangsáhrif tiltekinna þjóðréttarsamninga gagnvart almennum lögum. Ég tek fram að í síðara tilvikinu er auðvitað líka um framsal á ríkisvaldi að ræða og ég velti mér hvort það sé rétt eða skynsamlegt að hafa léttari leið í sambandi við framsal valds með þeim hætti en gert er ráð fyrir í almennu reglunni í 111. gr.

111. gr. vekur raunar margar grundvallarspurningar, í fyrsta lagi hvort við viljum hafa ákvæði í stjórnarskrá um heimild til framsals á fullveldi. Í öðru lagi, ef við erum þeirrar skoðunar að það eigi að vera heimilt, er hægt að fara mismunandi leiðir í því sambandi. Það er hægt að gera ýmist kröfu um aukinn meiri hluta á þingi og/eða þjóðaratkvæðagreiðslu og svo má lengi telja. Ég bendi á þetta vegna þess að ég tel að þarna sé atriði sem verðskuldar miklar umræður hér á þingi og úti í þjóðfélaginu, ekki síst vegna þess að við kunnum á næstu árum að standa frammi fyrir mjög raunhæfu viðfangsefni á þessu sviði sem tengist aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er því eins gott að þessar reglur séu vel hugsaðar og útfærðar.

Ég bendi á í þessu sambandi að lokum að með orðalagi ákvæðisins í 111. gr. er gert ráð fyrir að framsal ríkisvalds eigi fortakslaust að fara í þjóðaratkvæði en svo er aftur í skýringum talað um að óverulegt eða minni háttar framsal fari ekki þá leið. Þarna þarf að skýra hlutina nánar, það þarf að vera samræmi milli texta og skýringa en þetta er kannski ekki eina dæmið um misræmi milli skýringartextans og stjórnarskrárákvæðanna eins og þau eru sett fram af stjórnlagaráði.

Ég get heldur ekki látið hjá líða að benda á að ýmis atriði eru nokkurn veginn látin óútkljáð og nánast beinlínis viðurkennt af hálfu stjórnlagaráðs að það sé látið óútkljáð, svo sem afstaða til breytinga á kirkjuskipan og til þjóðkirkjufyrirkomulagsins, samanber það sem segir um 19. gr. Hið sama má raunar segja um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis og kjördæmaskipan. Þar er einhver veginn farin hálf leið í breytingum með framsetningu stjórnarskrárákvæðisins en það vantar hins vegar mikið upp á að það sé hægt að átta sig á því hver niðurstaðan verður. Þetta tel ég að þingið þurfi að fara vel yfir áður en gengið er frá einhverjum breytingum í þessum efnum.

Ég held að ég láti þessari upptalningu lokið. Ég nefni bara þetta sem dæmi um að það eru fjöldamörg atriði í tillögunum sem þarfnast nánari skoðunar. Þar þarf að skoða tvennt, annars vegar hvaða efnisbreytingu við viljum gera, hvaða breytingum við viljum ná fram efnislega, og svo hins vegar verður að vera samræmi milli þess sem við ætlum okkur og þess sem síðan er hægt að lesa út úr textanum. Textinn þarf að vera þannig skýr og skiljanlegur að það valdi ekki misskilningi, valdi því ekki að menn geti túlkað ákvæðin með mismunandi hætti. Við eigum ekki að búa til vandamál þegar við göngum frá stjórnarskrártexta.

Ég ætla ekki að fara nánar út í það að öðru leyti en að vísa til þess sem við urðum vitni að hér fyrir fáeinum dögum þegar forseti Íslands lýsti við þingsetningu ákveðnum skilningi á ákvæðum stjórnarskrártillagnanna um forsetaembættið. Hann fjallaði nokkuð um það út frá sinni túlkun. Í kjölfarið komu ýmsir fulltrúar úr stjórnlagaráði og sögðust ekkert hafa meint það sem forsetinn sagði. Menn lesa mismunandi hluti út úr textanum og það skapar vandamál þannig að ef við getum komist hjá því eigum við alltaf að hafa ákvæðin það skýr og skiljanleg, framsetninguna það góða, að efnisbreytingin, eins og við ætlumst til þess að hún verði, sé öllum ljós. Ég held að í þeirri deilu, svo ég leyfi mér að blanda mér í hana, sé töluverður fótur fyrir túlkun forsetans eins og hún kom fram í ræðu hans miðað við texta stjórnlagaráðsins. Ég dreg hins vegar ekki í efa að stjórnlagaráðsfulltrúarnir sem tjáðu sig opinberlega hafi líka haft rétt fyrir sér að því leyti að þeir ætluðu sér ekkert að hafa þetta svona. Þetta er bara áminning um að það skiptir verulegu máli, ekki bara hvaða efnisbreytingum menn vilja ná fram heldur líka hvernig framsetningunni er háttað, að ekki sé gefið svigrúm fyrir mismunandi túlkun ef mögulegt er að komast hjá því.

Ég sé, hæstv. forseti, að tími minn er að renna út í þessari umræðu. Ég hef fjallað um þetta með almennum hætti. Ég sé fyrir mér að okkar bíði töluvert mikil vinna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í sambandi við þessar tillögur. Ég er sammála hæstv. forseta um að það sé rétt að fara vandlega í textann, rétt að leita eftir skriflegum umsögnum og fá sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar og stjórnmálafræði og fleiri aðila á fundi nefndarinnar. Ég styð það eindregið að talað verði við fulltrúa úr stjórnlagaráði og stjórnlaganefnd en þess má geta að það er töluverður munur á tillögum stjórnlaganefndar frá því fyrr á þessu ári og síðan því sem frá stjórnlagaráði kemur. (Forseti hringir.)

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri, hæstv. forseti, en tel óhjákvæmilegt að koma í umræður síðar til þess að fjalla nánar um ýmsa þætti þessa mikilvæga máls.