Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 17:00:28 (433)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[17:00]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Það er ástæða til að fagna því að þetta mál er komið inn í þingið og í því formi sem það er, sem skýrsla. Það bendir til þess að ferli málsins og afgreiðsla þess sé enn þá nægilega opið þannig að nægilega margir geti í framhaldinu komið að ferlinu við að klára nýja stjórnarskrá Íslands. Það er einfaldlega hið besta mál.

Mér óar við þeim hugmyndum sem hafa komið fram enn einu sinni um að það eigi að vera á valdi Alþingis að skrifa nýja stjórnarskrá. Alþingi hefur brugðist í því verki sínu í hartnær 70 ár og miðað við það sem ég hef heyrt á einstökum þingmönnum í ræðum þeirra ef Alþingi ætlar eitt og sér að taka að sér að skila af sér nýrri stjórnarskrá mun það einfaldlega bregðast í því hlutverki enn eina ferðina.

Afstaða manna er alltaf sú að „ég“ vil hafa þetta í stjórnarskránni. Menn komast aldrei lengra frá sjálfum sér. Ný stjórnarskrá var meðal annars ein af kröfum búsáhaldabyltingarinnar. Fólkið sem stóð hér fyrir utan mánuðum saman krafðist þess að ríkisstjórnin færi frá, ríkisstjórn sem hafði gjörsamlega klúðrað öllu sem hægt var að klúðra í efnahagsmálum þjóðarinnar en neitaði að víkja. Eina vopn almennings í landinu, þeirra þúsunda og tugþúsunda sem komu samanlagt á fundi fyrir utan húsið, var að standa hérna fyrir utan, öskra á húsið og kasta í það drasli. Er það einhvers konar aðferð sem við viljum hafa í framtíðinni þegar almenningur kemur að stjórnmálum á Íslandi? Ég held ekki. Ekki síst þess vegna er sú mikilvæga krafa uppi sem fram kemur í þessum drögum sem stjórnlagaráð skilaði af sér að ákveðið hlutfall kosningarbærra manna geti einfaldlega kallað eftir kosningum. Það og það eitt mun veita stjórnvöldum hverju sinni það nauðsynlega aðhald sem þau þurfa á að halda.

Ég hef búið í þessu landi í hartnær 50 ár og frá því að ég komst til vits og ára hefur mér alltaf fundist Alþingi og stjórnmálaflokkar á Alþingi misfara með það umboð sem þeir hafa. Mjög margir Íslendingar eru sama sinnis og ég. Ég held að ég hafi rétt fyrir mér í mörgum tilvikum og rangt fyrir mér í mörgum tilvikum en meginatriðið er samt að ef nægilegur fjöldi landsmanna er sama sinnis og telur sér misboðið varðandi framgang Alþingis er hægt að krefjast atkvæðagreiðslu og þar með veita þinginu aðhald. Þetta tel ég mikilvægasta atriðið í þeirri þróun sem við erum vonandi að sjá hér.

Varðandi frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá hefur verið brotið blað í ritun stjórnarskráa sem hefur vakið mjög mikla athygli erlendis, hjá erlendum fjölmiðlum úti um allan heim, miklu meiri athygli erlendis en á Íslandi og það segir nú sitthvað um íslenska fjölmiðla og stöðu þeirra í dag því að aðferðin sem við höfum kosið að nota við þessa endurritun stjórnarskrár er til algerrar fyrirmyndar.

Alþingi samþykkti á sínum tíma frumvarp um þjóðkjörið stjórnlagaráð. Alþingi ákvað að afsala sér þeim völdum að hluta og útvista því verkefni að skrifa nýja stjórnarskrá. Það er að mínu viti eitthvert glæsilegasta verk Alþingis á lýðveldistímanum. Málsmeðferðin síðan þá hefur verið mjög vönduð, málsmeðferðin á því frumvarpi var með þátttöku allra flokka á sínum tíma og hér var sett í gang þríþætt ferli. Það var stofnað til þjóðfundar með slembiúrtaki úr þjóðskrá sem skilaði mjög mikilvægum og merkum niðurstöðum. Sjö manna stjórnlaganefnd sérfræðinga sem Alþingi var einhuga sammála um að yrðu valdir til verkefnisins fór yfir tillögur og hugmyndir þjóðfundarins og setti þær upp í tvö mjög glæsileg bindi, m.a. með tveimur útgáfum að nýrri stjórnarskrá og er ritverkið slík gersemi, stútfullt af upplýsingum um íslenska lýðveldið, að leitun er að öðru eins og til algerrar fyrirmyndar.

Síðan var hugmyndin að stjórnlagaþing yrði kjörið og ég tók þátt í að kjósa fólk á það þing. Yfir 500 manns voru í framboði og ég hef aldrei á ævi minni verið ánægðari með að fara á kjörstað því að það var úr miklu fleiri að velja en þessum 25 sem ég vildi fá þarna inn sem ég var mjög ánægður með. Það er staða sem ég hef aldrei verið í í kosningum á Íslandi fyrr, að það væri offramboð af hæfu fólki. Mér finnst það glæsileg aðferð við að velja fólk til að semja nýja stjórnarskrá. Yfir 84 þús. manns tóku þátt og þó að það sé ekki nógu margt í augum sumra eru það einfaldlega þeir sem höfðu nægilega mikinn áhuga á að taka þátt í þessu ferli sem fóru á kjörstað. Það minnkar ekkert vægi niðurstöðunnar.

Úrskurður Hæstaréttar í kjölfarið um að ógilda kosninguna var að mínu mati rangur og gekk of langt. Það kom ekkert fram sem sýndi fram á að ef hugsanlega þessir meinbugir á kosningunni hefðu náð fram að ganga hefðu þeir haft einhver áhrif á niðurstöðu kosninganna. Sú afstaða Hæstaréttar að ógilda kosninguna var út í hött og einfaldlega afrakstur dómskerfis hvers dómarar eru skipaðir á flokkspólitískum nótum. Þannig lít ég á þá niðurstöðu.

Í kjölfarið tók Alþingi sig til, leysti úr þeim hnút og stjórnlagaráð tók við keflinu. Það hafði ekki nægilegan tíma finnst mér en skilaði mjög góðu verki og vinnubrögðin hjá stjórnlagaráði voru til fyrirmyndar. Það var opið fyrir tillögum alls staðar að, hvort sem var á fundum, með símtölum eða með tölvupósti. Fundirnir voru opnir og það var alveg greinilegt að stjórnlagaráðsfulltrúarnir voru staðráðnir í að sýna fram á að hægt væri að vinna öðruvísi að framgangi mála en með því karpi og málþófi sem við verðum því miður oft vitni að í þinginu.

Stjórnlagaráðið skilaði af sér 29. júlí. Því miður tók það ekki afstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið eins og því var þó uppálagt í nefndaráliti allsherjarnefndar með frumvarpinu um stjórnlagaráðið, heldur afhenti forseta Alþingis og Alþingi tillögur sínar með allóljósum skilaboðum um að þau væru tilbúin að koma að málinu aftur ef þess yrði óskað. Þau lögðu samt til að einhvern tímann á ferlinu yrði viðhöfð þjóðaratkvæðagreiðsla. Þá er spurningin: Hvað nú? Ég tel að forsætisnefnd og forseti Alþingis hafi leyst úr þeirri spurningu með ágætisniðurstöðu, þeirri skýrslu sem við höfum fyrir framan okkur sem Alþingi er að fjalla um og mun svo fara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Fyrir utan Alþingishúsið, hjá öllum þeim sem ég hef hitt og í öllum þeim greinum og bloggfærslum sem ég hef lesið hefur ætíð verið uppi mjög skýr krafa um að Alþingi breyti sem minnstu í afurð stjórnlagaráðsins, einfaldlega vegna þess að verkefninu hefur þegar verið útvistað eins og menn segja og verkefnið var unnið með miklum sóma af þeim sem fengu það í hendurnar. Persónulegir hagsmunir þingmanna og þingflokka mega ekki verða til þess að þetta mál eyðileggist eina ferðina enn því að það er alveg greinilegt eins og sagan sýnir okkur að svokallaðir persónulegir hagsmunir þingflokka og þingmanna hafa staðið í vegi fyrir mjög mikilvægum breytingum á stjórnarskránni. Þá horfi ég ekki síst til þeirrar þráhyggju að viðhalda ákveðinni kjördæmaskipan sem hefur kostað okkur sennilega meira í peningum en nokkuð annað í lýðveldissögunni og verið ólýðræðisleg að fullu allan tímann. Við búum enn þann dag í dag við þá kjördæmaskipan og það atkvæðamisvægi að sumir Íslendingar hafa tvö atkvæði til móts við eitt hjá hinum. Það gengur ekki upp.

Það er mjög brýnt að þjóðin fái að segja álit sitt á þessu plaggi og það áður en Alþingi fær það til efnislegrar meðferðar vegna þess að ég tel að Alþingi geti ekki lokið því máli nægilega vel nema að undangenginni skýrri leiðbeiningu frá þjóðinni. Þess vegna meðal annars lagði Hreyfingin fram þingsályktunartillögu í síðustu viku um hugsanlegt ferli á þessu máli vegna þess að ferlið og áframhaldið er um margt óljóst. Það hefur komið fram í umræðu í dag að svo virðist sem fjölmörgum þingmönnum sé ekki kunnugt um innihald þeirrar þingsályktunartillögu. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti Alþingi 29. júlí 2011 fari í eftirfarandi ferli:

a. Frumvarpið verði tekið á dagskrá Alþingis eigi síðar en 1. nóvember 2011 og rætt sem skýrsla og að því loknu vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

b. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leiti eftir áliti sjö manna sérfræðinganefndar (stjórnlaganefndar) með tilmælum um að lagt verði heildstætt mat á frumvarpið sem grunn að nýrri stjórnarskrá. Að því loknu leggi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fram tillögur að breytingum ef þörf er á fyrir stjórnlagaráð eigi síðar en 1. desember 2011. Frumvarpið verði að því loknu tilbúið til kynningar almenningi eigi síðar en 1. febrúar 2012.

c. Stjórnlaganefnd standi fyrir víðtækri kynningu á frumvarpinu um allt land í samvinnu við RÚV, og aðra fjölmiðla ef óskað er. Komi fram afgerandi ósk um breytingar á einstökum þáttum frumvarpsins í kynningarferlinu er stjórnlaganefnd heimilt að taka tillit til þeirra. Stjórnlaganefnd afhendi stjórnlagaráði skýrslu um kynningarferlið, tillögur um breytingar ef einhverjar eru og tillögu um tilhögun ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Kynningu og hugsanlegum breytingum skal lokið eigi síðar en 1. maí 2012.

d. Stjórnlagaráð geri tillögu til Alþingis um að frumvarpið fari í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, jafnvel grein fyrir grein þar sem því verður við komið en þó þannig að fyllsta heildarsamræmis sé gætt. Þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en í júní 2012, samhliða forsetakosningum ef verða, þannig að stefnt verði að því að frumvarpið megi afgreiða frá Alþingi fyrir næstu reglubundnu þingkosningar í apríl 2013.“

Með þessari tillögu er svarað skýrt og greinilega öllum þeim spurningum sem hafa vaknað í dag um meðferð málsins og er einfaldlega ágætisaðferð til að koma málinu áfram í ferli þar sem sem flestir komi að því, það sé enn opið fyrir breytingum og að hugsanlegar breytingar verði þá kannski gerðar að tillögu þeirra sem kosnir voru til þess af 84 þús. manns, þ.e. stjórnlagaráði.

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars:

Tillaga þessi er lögð fram með það að markmiði að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð skilaði af sér fái ítarlega og vandaða meðferð, sem og umsögn þjóðarinnar allrar áður en Alþingi tekur málið til beinnar efnislegrar meðferðar sem frumvarp.

Ég vek athygli á þessu vegna þess að það hefur líka komið fram í dag að mörgum virðist sem tillögur stjórnlagaráðsins séu bara eitthvað sem hafi dottið af himnum ofan. En tillögur stjórnlagaráðsins eiga að baki sér mjög vandaðan og langan undirbúning og þær hafa verið ræddar við færustu sérfræðinga Íslands á sviði stjórnarskipunarréttar sem völ er á þannig að þessar tillögur eru vel ígrundaðar. Engu að síður hef ég, og er ég enginn sérfræðingur í málinu, komið auga á misræmi sem ég tel að þurfi að leiðrétta. Það hafa fleiri bent á og ég tel að það megi kannski skrifa það fyrst og fremst á þann takmarkaða tíma sem stjórnlagaráðið hafði til að klára málið.

Ég vek athygli á síðustu málsgreininni í greinargerðinni okkar með þessari þingsályktunartillögu en þar segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi þeirrar kröfu sem uppi er í samfélaginu um lýðræðisumbætur og þess litla trausts sem ríkir gagnvart Alþingi telja flutningsmenn brýnt að almenningur fái að láta í ljós álit sitt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi tekur frumvarpið til efnislegrar meðferðar. Slík atkvæðagreiðsla, þótt ráðgefandi sé, gefur Alþingi leiðbeiningu um afstöðu þjóðarinnar fyrir fram og auðveldar þannig þinginu að taka afstöðu til málsins í heild, sem og til einstakra efnisatriða þess. Slík atkvæðagreiðsla staðfestir ekki síst mikilvægi þess að stjórnarskráin kom beint frá þjóðinni og er auk þess skýr birtingarmynd þeirra mikilvægustu hugmyndar lýðræðisins að allt vald í lýðræðisríki eigi upptök sín hjá þjóðinni.“

Hér höfum við skýrslu forsætisnefndar um tillögur stjórnlagaráðs. Ég ætla ekki að fara efnislega í einstakar greinar þeirra tillagna en mig langar engu að síður að vekja athygli á aðfaraorðum í upphafi tillagnanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Þetta eru falleg orð, góð aðfaraorð að nýrri stjórnarskrá og gott dæmi um það hugarfar sem er að baki þessum tillögum og því hugarfari sem stjórnlagaráðsmenn höfðu við samningu stjórnarskrárinnar og þeirrar ábyrgðar sem þeir stóðu frammi fyrir og skiluðu af sér með miklum sóma.

Eins og ég hef áður sagt er þetta vandað plagg með aðkomu sérfræðinga. Engu að síður ber það þess merki að áherslan var lögð á að ná fullri samstöðu í stjórnlagaráði um niðurstöðuna, þ.e. 25:0 í lokaniðurstöðu, í stað þess að hafa fleiri en eina útgáfu af einstökum greinum sem ágreiningur var um. Það er aðferð sem stjórnlagaráðið kaus að fylgja og verður ekki um hana deilt. Ég hefði sjálfur hugsanlega viljað sjá hlutina gerða öðruvísi en ef ég stend engu að síður frammi fyrir því að samþykkja þetta plagg óbreytt eða hafna því mun ég samþykkja það heils hugar.

Ég tek sem dæmi að gamni mínu nokkuð sem veldur mér smáhugarangri í 113. gr. Þar segir, með leyfi forseta, í 2. mgr.:

„Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá frumvarpið gildi engu að síður.“

Þetta er í lokakaflanum um stjórnarskrárbreytingar, þ.e. í þessari málsgrein er gert ráð fyrir að Alþingi geti eitt og sér í framtíðinni breytt stjórnarskránni. Þetta finnst mér ganga gegn anda allrar þeirrar vinnu sem liggur hér að baki um að uppruni lýðræðisins sé hjá þjóðinni og að það sé þjóðin sem eigi alfarið að breyta stjórnarskránni í framtíðinni.

Ég nefni þetta sem eitt dæmi um nokkuð sem mér finnst þversögn en ég lýsi því samt yfir að við í Hreyfingunni eigum eftir að fá nákvæma yfirferð um þetta frumvarp frá fulltrúum úr stjórnlagaráði. Það stendur til að gera það sem fyrst og þá verður að sjálfsögðu fjöldanum öllum af þessum spurningum svarað. Þetta er ein aðferð sem þingflokkar eiga að nota í framhaldinu, nú þegar búið er að leggja þetta fram, að kalla fyrir sig fulltrúa úr stjórnlagaráði til að fara ítarlega yfir þetta grein fyrir grein þannig að ekki þurfi að endurtaka allar þessar spurningar jafnvel 63 sinnum. (Gripið fram í.) Búið að því, segja sumir. Gott og vel, það er merki um einstaka framsýni sem við verðum kannski ekki allt of oft vitni að í þingsal en þannig er mjög æskilegt að vinna þetta.

Það ferli sem Hreyfingin hefur lagt til er að okkar mati gott ferli. Þegar forsætisnefnd fjallaði um þetta mál í sumar var tillögu Hreyfingarinnar um að tillögum stjórnlagaráðs yrði dreift inn á hvert heimili í landinu hafnað af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Ég leyfi mér að benda á að vegna þessa hafa einstaklingar tekið sig til og látið útbúa þetta litla vasabrotsplagg sem heitir einfaldlega Ný stjórnarskrá Íslands. Hún hefur að sjálfsögðu ekkert stjórnarskipunarlegt gildi en ég held að þetta muni gerast. Ef Alþingi stendur sig ekki vel í því að virða áhuga þjóðarinnar á þessu verkefni munu einstaklingar taka sig saman um að kynna þetta verkefni sjálfir með samskotum og með stuðningi fyrirtækja og það væri til vansa fyrir Alþingi. Þeir munu jafnvel taka sig saman um og halda eigin þjóðaratkvæðagreiðslu um málið sem væri til enn meiri vansa og ég vona að til þess þurfi ekki að koma. Ég trúi því heldur ekki að til þess muni koma því að það eru greinilega uppi mjög víðtækar hugmyndir um að þjóðin eigi áfram að hafa aðkomu að þessu máli áður en það verður afgreitt.

Tillaga okkar um ferlið mundi skýra betur mörg þau atriði sem í fyrstu virðast óljós og gæfi líka þjóðinni möguleika á að segja álit sitt áður en Alþingi fær málið sjálft til efnislegrar meðferðar. Ég hef áður tæpt á því hvers vegna ég tel það óheppilegt. Ég tel að málið mundi einfaldlega daga uppi í þinginu og við mundum ekki fá nýja stjórnarskrá. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla á ákveðnu stigi ferlisins gefur Alþingi ómetanlegar leiðbeiningar um hvað þjóðin vill og þó að sú atkvæðagreiðsla sé aðeins leiðbeinandi skiptir hún mjög miklu máli. Þetta hef ég sagt meðal annars hv. þm. Pétri Blöndal held ég að minnsta kosti tíu sinnum, en það einhvern veginn skráist ekki nægilega vel þannig að hér stöndum við oft frammi fyrir því að svara endurtekið sömu spurningunum. Þá segja menn: Slík atkvæðagreiðsla hefur ekkert gildi. Að sjálfsögðu hefur hún gildi. Hún hefur leiðbeinandi gildi og sem slík hefur hún náttúrlega siðferðilegt gildi líka.

Herra forseti. Við stöndum á tímamótum á Íslandi og á Alþingi í dag. Ný stjórnarskrá er í umræðu og ný stjórnarskrá er nauðsyn í stað þess bráðabirgðaplaggs sem núverandi stjórnarskrá er. Hún var alltaf hugsuð til bráðabirgða. Það hefur komið skýrt fram í heimildum sagnfræðinga að þegar lýðveldið fæddist á Þingvöllum árið 1944 hugsuðu þeir sem stóðu að því og að stjórnarskránni hana fyrst og fremst sem bráðabirgðaplagg sem farið yrði út í að breyta mjög fljótlega. Þetta er dönsk stjórnarskrá sem við búum við, hún er samin af dönskum konungi og ber þess skýrt merki og það er einfaldlega löngu orðið tímabært að Íslendingar semji sína eigin stjórnarskrá og hér erum við komin ansi langt á veg með það.

Ég lýsi því yfir að framgangur þessa máls hefur í alla staði verið glæsilegur og hann hefur verið lýðræðislegur svo til eftirbreytni er. Við höfum útbúið aðferðafræði yfir samningu stjórnarskrár sem er algjört einsdæmi og þeir fjölmiðlamenn erlendis sem ég tala við um þetta mál og útskýri fyrir þeim hvað búið er að gera segja í langflestum tilfellum eitthvað í þessa veru: Guð gefi að minni þjóð veittist sú gæfa að útbúa nýja stjórnarskrá með þeim hætti sem þið eruð að gera á Íslandi.

Það er óskandi að þetta góða ferli haldi áfram sem slíkt og að allir verði sáttir við bæði ferlið og niðurstöðuna þegar þar að kemur. Við vitum öll að ákveðin öfl munu ekki vilja sjá neinar breytingar og munu spyrna við fæti á öllum stigum málsins. Þannig hefur það alltaf verið og það er þá bara nokkuð sem Alþingi þarf að takast á við. Þeir þingmenn sem telja brýnt að við fáum nýja stjórnarskrá verða þá bara að taka höndum saman um að koma málinu í gegn.

Herra forseti. Þjóðaratkvæðagreiðsla um drög að stjórnarskrá staðfestir mikilvægi þess að stjórnarskráin komi beint frá þjóðinni eins og ég sagði áðan og er auk þess skýrasta birtingarmynd þeirrar mikilvægustu hugmyndar lýðræðisins að allt vald í lýðræðisríki eigi upptök sín hjá þjóðinni. Því megum við aldrei gleyma því að ella erum við ekki nema einhvers konar B-útgáfa af lýðræðisríki og það höfum við einfaldlega verið allt of lengi.