Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 17:37:55 (441)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[17:37]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Hér er hv. þingmaður að tala um 79. gr. sem hann hefur ítrekað lagt fram tillögur um breytingar á, þ.e. að aðferðinni við breytingu á stjórnarskránni verði breytt. Þá tillögu hef ég ætíð stutt, hef alltaf fagnað henni og talið að hún ætti að koma fyrst. Eins og staðan er í dag í þessu máli erum við einfaldlega komin á ákveðinn punkt í þessu ferli þar sem málið mundi tefjast allt of mikið og sú dýnamík og sú umræða sem er í gangi í samfélaginu mundi missa damp ef við þyrftum að bíða heilar kosningar eftir því að geta tekið tillögur stjórnlagaráðsins til umræðu. Það þyrfti að samþykkja breytingar á 79. gr. á tveimur þingum með kosningum á milli til að afgreiða hana og ég tel það of slæmt fyrir þetta mikilvæga mál. Ég held að það sé hægt að afgreiða það með skynsamlegum hætti á annan veg.

Hvað hitt málið varðar var ekki ætlun mín að særa þingmanninn persónulega með skoðunum mínum á sannfæringu (Gripið fram í.) þingmanna almennt en ég leyfi mér að benda á að ef menn taka afstöðu í einhverju máli út frá einhverjum heildarhagsmunum og fórna þar af leiðandi hugsanlega sannfæringu sinni í einhverju öðru máli eru menn einfaldlega að fórna sannfæringu sinni. Mér finnst stagl um þetta orð, sannfæringu, ekki skipta svo miklu máli. Það skiptir máli hvað stjórnarskrána varðar og þingmenn en við getum verið í endalausu stagli út af því ef við viljum og ég tel enga þörf á því.