Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 18:20:25 (448)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[18:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Þetta er með sanni ánægjulegur dagur. Mjög mikið hefur þegar komið fram af því sem ég vildi segja. Ég ætla ekki að endurtaka það en vil vitna sérstaklega í meginundirstöðu þess sem hv. þm. Þór Saari hafði fram að færa, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og ég þakka þeim kærlega fyrir.

Það er eitt sem mér finnst mjög mikilvægt samt að skerpa svolítið á. Það er mikilvægi þess að við þingmenn fáum lánaða dómgreind og fáum leiðsögn hjá þjóðinni um það hvað hún telji að sé mikilvægt að sé í þessum samfélagssáttmála okkar. Mér finnst jafnframt mjög mikilvægt að ferlið við að koma þessu inn í umræðuna sé skilgreint hjá okkur á þinginu því að þetta verkefni er í okkar höndum.

Mér var færð mjög falleg gjöf í dag sem er fyrsta eintakið af nýrri stjórnarskrá Íslands eða sem sagt frumvarpinu sem hefur verið lagt fyrir þingið. Þetta er fallega sett upp eins og ljóð. Það stendur til að gefa þetta út og afhenda þjóðinni og vonandi skapa umræðu.

Þegar ég hef lesið þessar tillögur, þó að ég sé ekki sammála þeim öllum og hefði fundist við eiga að ganga lengra að sumu leyti, virði ég það að 25 aðilar náðu samstöðu um atriði sem ekki allir voru sammála um. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við virðum að niðurstöðu var náð því að ef við ætlum að reyna að komast að sambærilegri niðurstöðu hér á þingi og fara efnislega í þetta verður það þunnur þrettándi og alls ekki það sem þjóðfundur kallaði eftir. Mér finnst mikilvægt að við virðum þetta ferli frá upphafi til enda.

Þetta finnst mér það merkilegasta sem ég hef haldið á og lesið síðan ég kom á þing. Mig langar til þess að lesa aðfaraorðin, með leyfi forseta, eins og þau leggja sig því að mér finnst þau svo falleg. Ef þetta er samfélagssáttmálinn sem fólk kallar eftir get ég með sanni verið stolt af því að vera Íslendingur.

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Ég fæ gæsahúð þegar ég les þetta, þetta er svo fallegt. Ég þakka stjórnlagaráði sérstaklega fyrir þá góðu vinnu sem það lagði í þetta og ég ber mikla virðingu fyrir vinnu stjórnlagaráðs sem þurfti að hefjast í skugga ákveðinna afla. Ég vil líka þakka Stjórnarskrárfélaginu kærlega fyrir þeirra velheppnuðu vinnu við að koma umræðu í gang um þetta mál. Mér finnst mjög mikilvægt núna þegar þetta er komið undir forræði Alþingis að við undirbúum og leggjum til að t.d. RÚV útbúi stutta þætti með hverri grein eða hverjum kafla — helst hverri grein og útskýringum með henni — sem síðan er hægt að setja á YouTube og sýna kannski rétt fyrir fréttir þannig að það skapist umræða. Það er svo mikilvægt að umræða skapist um þennan samfélagssáttmála.

Mér finnst rosalega mikilvægt að þetta verði ekki bara eitthvert mál sem örfáir þingmenn tala um og einhverjir fræðimenn. Ég fagna því tillögum hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um að taka þetta inn í fræðasamfélagið. Það er mér hjartans mál að þetta verði til umræðu í samfélaginu og ég vonast til að það verði kynnt um allt land og þegar frumvarpið verður að lögum eftir að búið er að sníða af þá tæknilega agnúa sem bent hefur verið á muni fólk kunna það utan að. Ég vona að það verði kennt í barnaskólum landsins því að þetta eru nýju boðorðin tíu, þó að þau séu aðeins fleiri.

Mér finnst svolítið mikilvægt að við förum ekki í efnislegar breytingar. Það er búið að taka á hinum efnislega þætti þess plaggs sem ég hef í höndunum. Aftur á móti er ég sammála því ferli að skoða þetta vel og leggja til breytingartillögur ef lagfæra þarf tæknileg atriði og ef eitthvað stangast á. Ég legg eindregið til að þingið skoði vel og fari í góða umræðu í hinni nýju nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, um hvernig best fer á að koma þessu alla leið þannig að árið 2013 getum við öll í það minnsta á hverjum jólum farið með aðfaraorðin. Ég vona svo sannarlega að ekki verði hróflað við þeim því að þau finnst mér vera mjög falleg og lýsandi fyrir það samfélag sem ég persónulega mundi vilja lifa í og stórkostlegt að sjá hvað margir eru sammála því.

Leið okkar Íslendinga að því að fá þjóðina til að taka þátt í að koma að þessu verki er einstök. Ég hef ferðast vítt og breitt, sérstaklega um Evrópu, til að ræða um upplýsinga- og tjáningarfrelsi og aðkomu almennings að stjórnsýslu. Allir fylgjast mjög náið með hvað við erum að gera. Fólk ber mikla virðingu fyrir ferlinu og aðferðir stjórnlagaráðs til að koma þessu í umræðu og fá fleiri til að taka þátt en bara þá sem hefðbundið skipta sér af stjórnsýslumálum hafa spurst út um allan heim. Mig langar að deila því hvað þetta ferli hefur þótt virðingarvert. Margir vilja taka okkur sér til fyrirmyndar í þessu máli og mikilvægt er að við getum orðið fyrirmynd að jákvæðri samræðu á milli þjóða og þinga annars staðar en bara hér því að það er nokkuð sem stendur í aðfaraorðunum, að við viljum líka hugsa út fyrir eyjuna okkar.

Ég er sérstaklega hrifin af mannréttinda- og náttúrukaflanum og því er varðar upplýsingarétt í 15. gr. og 16. gr., frelsi fjölmiðla. Þetta eru í mínum huga mikilvægustu partarnir jafnframt partinum um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. Ef við búum í samfélagi þar sem ekki ríkir upplýsinga-, tjáningar- og málfrelsi þá búin við í raun ekki í lýðræðisríki. Það er mikilvægt að það sé skýrt og í takti við nútímann eins og hefur greinilega verið skrifað í þetta frumvarp.

Þó svo að ég hefði sjálfsagt viljað ganga lengra með sumt verð ég samt að segja að andinn í þessu, fyrstu skrefin sem við tökum með nýrri stjórnarskrá mun færa okkur inn í hið nýja Ísland sem svo margir kölluðu eftir í kjölfar hrunsins. Þetta er mjög góður hornsteinn að nýju Íslandi.