Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 18:50:15 (454)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[18:50]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Já, hér er þingmaðurinn að ræða um frumvarp sem hann hefur flutt og ég man ekki betur en að ég sé meðflutningsmaður að því og hafi verið það á síðasta þingi og sé það líka í nýjustu útgáfunni, og ég styð það heils hugar. En ég held að við ættum samt að halda áfram í þessu ferli.

Nú hafa verið lögð fram tvö þingmál sem geta í raun haft áhrif á málsmeðferð þessarar skýrslu eða frumvarpsdraga frá stjórnlagaráði. Og ég held að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eigi að skoða báðar þessar leiðir mjög ítarlega. Það er alveg rétt að það þing sem nú situr, og verður örugglega ekki eins eftir næstu kosningar, getur ekki bundið hendur þeirra þingmanna sem munu setjast á þing eftir næstu kosningar, þannig að þessi leið er ágæt og ég hef alltaf verið mjög hrifin af hugmyndinni.