Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 19:12:34 (457)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[19:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Stórt er spurt. Nei, ég á mér ekki neina uppáhaldsgrein í þessu frumvarpi. Ég vil þó segja að ég er einna sáttastur við þá breytingu sem lagt er upp með að löggjafarvaldið sé hjá Alþingi. Ég tel að það hafi verið upphaf að breytingu sem hafi verið mjög skynsamleg en því miður sýnist mér á því sem ég les úr skjalinu að deilur hafi verið innan stjórnlagaráðsins um stöðu forsetans og um 26. gr. og menn hafi einhvern veginn mæst á miðri leið með því að segja: Það er þingið sem er með löggjafarvaldið en ákveðið síðan að halda forsetanum inni með neitunarheimildina og málskotsréttinn. Ef það er niðurstaðan hefði þurft að ganga betur frá því og tempra það ákvæði rétt eins og 11. gr. í núgildandi stjórnarskrá þar sem gert er ráð fyrir því að ef Alþingi samþykkir að reka forsetann úr embætti þurfi að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu og ef þjóðin segir nei og er ósammála þinginu þurfi að rjúfa þing. Það þýðir að þingið fer mjög varlega og sparlega með slíka heimild. Sama tel ég að eigi að gilda ef við ætlum að hafa það fyrirkomulag að forsetinn geti eins og hann er skrifaður í stjórnarskrána, á jafnveikum grunni finnst mér, sagt nei við lögum frá Alþingi sem þó eitt fer með löggjafarvaldið að þá þurfi það a.m.k. að hafa afleiðingar, að einhver temprun sé þannig að það sé ekki notað á nokkurra ára fresti. Það höfum við séð hjá okkur eftir að sú túlkun varð ofan á sem er hjá núverandi forseta. Þetta er í raun og veru búið að gerast í þrígang frá árinu 2004. Ég tel að það sé óheppilegt.

Svo að ég komi aftur að fyrirspurn hv. þingmanns þá er ég einna ánægðastur með þessa grein en ég hefði viljað sjá henni fylgt eftir með öðrum hætti en gert er.