Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 19:59:54 (463)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[19:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar. Þetta er mjög einfalt. 13. gr. tekur hinar greinarnar úr sambandi. Þar stendur:

„Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“

Þegar hann ætlar að gera samninga við erlend ríki lætur hann utanríkisráðherra framkvæma vald sitt. Þetta er mjög undarlegt og venjulegt fólk skilur þetta ekki, geri ég ráð fyrir. Þetta er ekki hefðbundið tungumál, en svona hef ég skilið þetta. Þetta finnst mér í lagi.

Það sem ekki er í lagi er þegar félagaréttarákvæðin eru brotin. Það er ekki í lagi og það hefur gerst aftur og aftur og er í gildi í dag. Til dæmis eru bændur skyldaðir til að borga í Bændasamtökin þó að þeir vilji ekki vera félagsmenn. Opinberir starfsmenn eru skyldaðir til að borga í stéttarfélag opinberra starfsmanna hvort sem þeir vilja eða ekki. Það stendur meira að segja mjög greinilega að þeir skuli borga hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Þeir verða að borga hvort sem þeir vilja eða ekki og ef þeir eru ekki félagsmenn missa þeir öll réttindi sem byggja á þessu félagsgjaldi. Þeir eru þvingaðir til að verða félagsmenn til að fá réttindin. Þetta finnst mér alvarlegt en þetta er í gildi í dag og menn hafa ekkert gert í því.

Svo er líka ákvæði í stjórnarskránni um að ekki megi skuldbinda ríkissjóð. Það má ekki skuldbinda ríkissjóð nema með fjárlögum eða fjáraukalögum. Í dag voru opnað tilboð í Vaðlaheiðargöng. Það er skuldbinding á ríkissjóð. Ég hef hvergi séð það í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ríkissjóður getur ekki hætt við það, hann getur ekki sagt: Okkur kemur þetta ekki við. Þetta er ákveðin skuldbinding og svo er mjög margt annað, t.d. Harpa, þar er búið að gera samning. Ég get ekki séð að ríkissjóður geti hætt við hann þannig að mér finnst að menn eigi að taka á honum stóra sínum og fara að framkvæma núgildandi stjórnarskrá, þá er einhver von til að þeir framkvæmi þessa nýju líka.