Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 20:02:46 (465)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[20:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög erfið spurning og ég get eiginlega ekki svarað henni nema þannig að mér finnst inngangurinn ljómandi fallegur, ég verð að segja það. Mér finnst menn hafa hitt vel þar á og eins kannski 1. gr.:

„Ísland er lýðveldi með þingræðisstjórn.“

Það er ágætt, það liggur þá alveg á tæru að þannig skuli það vera. Það er ýmislegt, m.a. þau atriði sem snúa að mannréttindum, vernd minni máttar í þjóðfélaginu. Eignarrétturinn er tryggður o.s.frv. Mannréttindakaflinn er það sem allt þetta snýst um og mér finnst að hann ætti að vera í öndvegi til að menn geti haft frelsi til að rækja trú sína og sannfæringu. Það er til dæmis eitt sem ég met mjög mikils. Mannréttindakaflinn tryggir borgaranum, einstaklingnum, ákveðið frelsi og ákveðna vernd fyrir ríkisvaldinu sem getur orðið mjög sterkt þannig að ég verð að segja að með þann kafla, a.m.k. í heild sinni, er ég mjög ánægður og finnst góður. Það er mjög margt gott í þessum tillögum, það er ekki spurning. Ég er alls ekki að gagnrýna út af öðru en því að ég vil gera þær enn þá betri. Það er takmarkið og ég skora á hv. nefnd sem fær þetta til umfjöllunar, hér sitja einhverjir sem eru í þeirri nefnd, að gefa sér góðan tíma, hlusta á margvísleg sjónarmið og rök og gera frumvarpið enn þá betra.