Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 20:39:40 (472)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[20:39]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðu hans sem var að mörgu leyti fróðleg og skemmtileg á að hlýða.

Ég átta mig samt ekki á afstöðu hans til breytinga á stjórnarskránni yfirleitt, þ.e. hvort hv. þingmaður telji ástæðu til að breyta stjórnarskránni frá því sem nú er og þá hverju. Ég held að það hafi komið fram í ræðu hv. þingmanns að hann teldi óráðlegt að breyta henni allri eða taka hana alla til endurskoðunar í einu, eins og nú er gerð tillaga um, heldur að hún ætti að vera í stöðugri þróun og endurskoða ætti frekar einstaka kafla í henni en hana í heild sinni.

Mér fannst ekki koma skýrt fram hjá hv. þingmanni hvort hann teldi yfir höfuð ástæðu til að breyta stjórnarskránni og ég mundi vilja beina þeirri spurningu til þingmannsins hvort svo sé. Telur hv. þingmaður að ástæða sé til að breyta stjórnarskránni eða er það ástæðulaust? Getum við haldið þeirri stjórnarskrá sem nú er í gildi og er engin þörf á því að breyta henni eða laga hana? Kallar það sem gerst hefur í samfélaginu á undanförnum árum ekki á breytingar á stjórnarskránni eða má leita þeirra orsaka annars staðar?