Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 20:41:13 (473)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[20:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir ágæta spurningu. Reyndar svaraði ég þessum hugleiðingum í ræðu minni að hluta til. Ég tel ekki að það sem hefur gerst hér á undanförnum árum eigi rætur sínar í gallaðri stjórnarskrá, af og frá. Ég tel ekki að gallar í íslensku stjórnarskránni séu frumorsök þess að það varð fjármálakreppa í heiminum.

Ég sé enga brýna þörf á að breyta stjórnarskránni en ég tel aftur á móti, nákvæmlega eins og ég sagði, að stjórnarskrá eigi að vera í stöðugri þróun. Og eins og ég benti á finnst mér sú aðferð sem við höfum notað frá 1944 til að breyta stjórnarskránni, hafa gengið bærilega. Að vísu hafa komið upp vandamál eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á áðan, þegar menn gátu ómögulega komið sér saman um breytingu á tiltekinni grein, 27. gr., en ég sé ekki þá brýnu nauðsyn að breyta stjórnarskránni eins og margir þeirra sjá sem aðhyllast þá vinnu sem hefur farið fram, ég sé ekki þá nauðsyn.