Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 20:42:47 (474)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[20:42]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og viðbrögðin við andsvörum mínum áðan. Það er þá skýrt að hv. þingmaður telur ekki ástæðu til að endurskoða stjórnarskrána í dag frá grunni. En telur hv. þingmaður að það sé ástæða til að endurskoða einstaka þættir stjórnarskrárinnar einmitt í dag og ræða þá? Hvaða þættir eru það? Eða telur hv. þingmaður að það sé engin ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur af því sem í gildandi stjórnarskrá er og ástæðulaust að bregðast við því með nokkrum hætti?

Ég get verið sammála hv. þingmanni um að frumorsakar þess sem hér gerðist í samfélaginu sé ekki endilega að leita til stjórnarskrárinnar og hvernig hún var. Frumorsökin er miklu meira mannanna verk, hvernig menn höguðu sér, bæði við stjórn landsins og hér á þinginu, og hvernig menn fóru með þau lög og þær reglur sem menn þóttust vera að vinna eftir og höfðu í höndunum, jafnvel stjórnarskrána þar með. Það má vel vera að það sé þannig. En mér finnst enn vanta svar við því hvort sú umræða sem hér fer fram og vinnan sem fram hefur farið við endurskoðun á stjórnarskránni sé ástæðulaus, að mati hv. þingmanns, hvort hann telji að þetta hefði betur verið látið ógert og við ættum að snúa okkur að einhverju öðru frekar eða hvort hv. þingmaður telji að það hefði mátt skoða tiltekna þætti stjórnarskrárinnar og breytingar á þeim, í stað þess að taka hana alla fyrir eins og hv. þingmaður hefur reyndar sagt að hann sé ósammála að gera.

Þetta langar mig að vita, hvort hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að það sé alveg ástæðulaust að skoða nokkra þætti stjórnarskrárinnar, hvort sem frumorsaka þess sem hér gerðist sé að leita til hennar eða ekki.