Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 20:47:26 (476)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[20:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni í dag sagði ég eitthvað á þá leið að umgjörð þessarar umræðu væri þannig að erfitt væri að fjalla nokkuð ítarlega um allar þær fjölmörgu einstöku breytingartillögur sem felast í þeim tillögum stjórnlagaráðs sem hér liggja fyrir. Vegna þess að ég hygg að orð mín hafi kannski eitthvað misskilist vil ég taka fram að ég var ekki að gera athugasemdir við sjálft fyrirkomulag umræðunnar. Ég held að það hafi verið allt í lagi uppsetning að taka þessa umræðu í skýrsluformi með tvöföldum ræðutíma en engu að síður er takmarkaður tími til að tala um hverja einstaka efnisbreytingu sem þó verðskuldar slíka umræðu og það litar umræður í dag. Menn koma víða við en ná sjaldnast að kafa djúpt í einstaka þætti. Hið sama á vafalaust við um þá ræðu sem ég flutti fyrr í dag þar sem ég vék að einstökum tillögum fyrst og fremst í dæmaskyni en fjallaði þó frekar með almennum hætti um það hvernig mér finnst að við eigum að nálgast þetta verkefni.

Út af fyrir sig hefur margt komið fram í þessari umræðu og ætla ég svo sem ekki að endurtaka það. Það eru nokkrar hugleiðingar samt sem áður sem hafa kviknað hjá mér meðan á þessari umræðu stendur. Eitt atriðið tengist því sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson og raunar hv. þm. Pétur H. Blöndal komu inn á áðan og tengist frá mínum bæjardyrum séð nýjum eða breyttum ákvæðum í mannréttindakafla þar sem tilgreind eru réttindi sem eftir atvikum eru kölluð annarrar eða þriðju kynslóðar mannréttindi, tengist líka sérstaklega ákvæðum um náttúruvernd, en það má eiginlega segja að í þessum ákvæðum birtist ákveðnar markmiðslýsingar fyrst og fremst. Þetta eru ekki skýrar eða skilgreindar lagareglur heldur frekar óljósar markmiðslýsingar, háleitar og fallegar.

Ég er að velta einu fyrir mér og bið hv. þingmenn að deila þeirri hugsun með mér, við getum sett ákvæði inn í stjórnarskrá um að okkur beri alltaf að tryggja öllum bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Hvað þýðir þetta? Hefur þetta einhver réttaráhrif í för með sér? Öðlast einhver íslenskur borgari rétt við það að þetta kemur inn í stjórnarskrá sem hann hefur ekki í dag? Ég leyfi mér að efast um það. Þetta er markmiðsyfirlýsing en hún færir engum neinn tiltekinn rétt, hún breytir ekki réttarstöðu. Hið sama á við um almenna og háleita, fallega og jákvæða yfirlýsingu um að það eigi að tryggja öllum bestu menntun. Við getum tekið sem dæmi sanngjörn laun eða eitthvað þess háttar. Þetta eru markmiðsyfirlýsingar sem hafa mjög óljósa merkingu og breyta ekki réttarstöðunni. Það er enginn íslenskur ríkisborgari, held ég, sem öðlast neinn rétt við það að slíkt komi inn í stjórnarskrá sem hann hefur ekki í dag — eða hvað? Er þetta eitthvað meira en óljós markmiðsyfirlýsing? Og hvað er það þá? Ég bið hv. þingmenn að hugsa þetta vegna þess að það er auðvitað hægt að fylla stjórnarskrá af alls konar mjög jákvæðum markmiðum, yfirlýsingum um að við viljum búa í allra besta heimi allra heima. Breytist heimurinn við það? Nei, ég held ekki.

Þegar við setjum ákvæði í stjórnarskrá snýst það ekki bara um að orða fallegar hugsanir. Við verðum að átta okkur á því að stjórnarskrá er löggjöf. Hún hefur lagalega verkan. Menn geta eða eiga að geta byggt rétt á ákvæðum stjórnarskrár fyrir dómstólum. Er það ekki tilgangurinn? Er það ekki þess vegna sem við setjum svona inn í stjórnarskrá en látum ekki nægja að segja eitthvað í hátíðarræðum eða landsfundarályktunum stjórnmálaflokka eða eitthvað þess háttar? Ætlumst við ekki til þess að það byggist einhver réttur á þessu? En hver er sá réttur sem menn fá með þeim ákvæðum sem ég nefndi? Hver er sá réttur? Geta menn farið til dómstóla og sagt: Heyrðu, ríkisvaldið tryggir mér ekki besta mögulega heilbrigðiskerfi í heimi? (Gripið fram í.) Við skulum skoða orðalagið, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. Við þurfum bara að velta því fyrir okkur þegar við setjum inn svona ákvæði hvort þau hafi einhverja merkingu. Og ef þau hafa merkingu, hvaða merkingu hafa þau? Við þurfum jafnframt að spyrja okkur: Hver á að útfæra þau markmið sem koma fram í stjórnarskrárákvæðunum? Er það löggjafinn? Já, væntanlega. Löggjafinn á að gera það. En hvað gerist ef einstaklingur, einhver borgari landsins, telur að löggjafinn hafi ekki staðið sig í stykkinu? Hvað gerir hann þá? Hann fer til dómstóla. Og hvað eiga dómstólarnir að gera? Eiga þeir að leggja sjálfstætt mat á það hver er besta mögulega heilbrigðisþjónusta? Eiga dómstólarnir að leggja mat á það hvað eru sanngjörn laun fyrir tiltekna vinnu? Ætlumst við þá til þess að dómstólarnir setji reglurnar um þessi svið?

Þetta vildi ég nefna í þessari umræðu vegna þess að við verðum þegar við ræðum stjórnarskrána að velta fyrir okkur til hvers við ætlum að nota ákvæðin. Hvernig ætlumst við til að þau virki? Hvernig metum við möguleg áhrif þess að setja tiltekin ákvæði inn í stjórnarskrá eða breyta orðalagi að einhverju leyti? Hvernig gerum við það? Ég held að þetta sé atriði sem við þurfum að skoða vel í yfirferð okkar um það plagg sem hér liggur fyrir. Ég held að við þurfum að velta því vel fyrir okkur hvort við erum að setja inn í stjórnarskrá ákvæði sem eru marklaus eða ef þau hafa einhverja merkingu spyr ég hver eigi að móta regluna sem felst í hinu óljósa orðalagi. Er það löggjafinn? Ef það er löggjafinn, hefur löggjafinn þá frjálsar hendur? Getur hann túlkað að eigin vali hvernig markmiðunum yrði náð? Eða erum við hugsanlega, eins og ég hef raunar nokkrar áhyggjur af, að fela dómstólum í auknum mæli völd til að setja réttarreglur? Þetta er ákveðin hugsun sem við þurfum að hafa í huga. Við treystum dómstólum til að dæma eftir lögunum en við verðum hins vegar að fara varlega í það að orða lagaákvæði og þá sérstaklega stjórnarskrárákvæði með þeim hætti að við leggjum dómstólum á herðar þá skyldu að búa til réttarreglur. Það er atriði sem mér finnst að við þurfum að varast.

Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að fara lengra. Þetta var atriði sem kom mér í hug í þessari umræðu í ljósi þess sem hv. þingmenn sögðu áðan. Við eigum eftir að fara yfir þessar tillögur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og vafalaust fáum við líka tækifæri til að ræða þær í þingsal síðar. Ég legg að lokum áherslu á það, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, að við þurfum að fara í þessa vinnu af fullri alvöru og varúð, gæta þess að átta okkur á því nákvæmlega hverju við viljum breyta og þegar við höfum komist að niðurstöðu um það þurfum við að vanda okkur við framsetningu og útfærslu.