Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 21:02:18 (479)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[21:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég verð að gagnrýna þetta form, að þetta skuli rætt sem skýrsla því að það er bara ein umræða um skýrslur og því verður lítið um samræðu þingmanna um málið. Menn velta vandanum dálítið yfir á þá nefnd sem fær málið til skoðunar sem er þá mönnuð nokkrum þingmönnum af þeim 63 sem hér sitja.

Það sem ég ætla að byrja á að tala um er hvernig þetta frumvarp — ég hef ekki nokkur tök á því, frú forseti, í þessum stutta ræðutíma að fara í gegnum allt málið en ég ætla að fara í gegnum nokkur atriði. Í 113. gr. er gert ráð fyrir því að stjórnarskrárbreytingar verði, eftir að þetta hefur verið samþykkt, bornar undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar og það er vel, en það stendur ekkert um hvað þurfi marga. Það virðast engin mörk vera á því, þ.e. það gætu 20% tekið þátt í kosningunni og 11% samþykkt og þá er orðin stjórnarskrárbreyting.

Frú forseti. Ég er ekki sáttur við þetta. Ég er ekki sáttur við það að 11% þjóðarinnar geti tekið ákvörðun um að breyta grundvelli lagasetningar. Ég hefði viljað hafa einhver mörk þarna og ég skora á hv. nefnd sem fær málið til skoðunar að skoða þetta mjög nákvæmlega. Ég var reyndar mjög metnaðargjarn í mínum hugmyndum um breytingu á 79. gr., að 60% kjósenda þyrftu að samþykkja breytingu vegna þess að ég vil að það sé gert í sæmilegri sátt.

Gert er ráð fyrir því að forseti Íslands starfi áfram, að það embætti verði áfram til staðar. Ég er alls ekki að taka afstöðu til þeirrar persónu sem gegnir því embætti en ég hef lagt til í tvígang áður að það embætti verði lagt af og forseti Alþingis taki yfir þau verkefni sem þar sitja og verði fulltrúi landsins út á við. Ég held að menn ættu að skoða það. Íslendingar hafa ekki haft kóng nema erlenda lengi vel og það gafst ekkert voðalega vel. Ég held að íslenskt þjóðfélag sé ekki þannig upp byggt að við þurfum kónga og forsetinn tók greinilega yfir hlutverk danska konungsins þegar stjórnarskráin var samþykkt.

Ég verð að tala um þær væntingar sem menn hafa um breytingar á stjórnarskrá. Það er eins og sumt fólk haldi að ef við breytum stjórnarskránni batni veðrið meira að segja. Það falli allt í ljúfa löð og hér verði aldrei óréttlæti, félagslegt óréttlæti, hrun eða einhver leiðindi, atvinnuleysi muni hverfa eins og dögg fyrir sólu o.s.frv. Þetta er náttúrlega reginfirra. Ég vil að menn átti sig á því að breyting á stjórnarskrá hefur ekkert voðalega mikið gildi fyrir almenna hegðan nema eitthvað komi upp sem er svo voðalegt að borgarinn þurfi vernd, þ.e. ef stjórnarskráin er brotin sem á eiginlega aldrei að gerast en gerist þó endrum og eins. Ef stjórnarskráin er á almennilegu máli og enginn efi er um hvað greinarnar þýða og hvað stjórnarskráin meinar mun hún virka miklu betur en ef orðalag hennar er eitthvað loðið.

Talað er um Lögréttu í 62. gr. Ég hef alltaf litið svo á að við eigum að nota Hæstarétt til að dæma um hvort lög frá Alþingi standist stjórnarskrána. Við eigum að nota Hæstarétt, hafa hann fullskipaðan og kalla hann stjórnlagadómstól í því tilviki að hann endrum og eins, einstaka sinnum, dæmi um það að eigin frumkvæði eða beiðni annarra hvort ákveðin lög frá Alþingi standist stjórnarskrá. Ég er á móti því að búin sé til sérstök Lögrétta sem meira að segja Alþingi sjálft kýs sem ég tel ekki gott.

Vandinn við þetta frumvarp er sá að við Íslendingar eigum ekki orð yfir hugtakið manneskja nema orðið manneskja. Þjóðverjar sem eiga orðið „Mensch“ sem þýðir manneskja en gengur dálítið lengra, mannvera. Það gerir okkur dálítið erfitt um vik því að við verðum alls staðar að nota orðið maður sem í málvitund fólks þýðir karlmaður, sem er ekki nógu sniðugt þó að menn reyni alltaf að segja við sjálfan sig að maður er jú bæði maður og kona. Þetta er ákveðið vandamál og ég hefði viljað að öll stjórnarskráin væri skrifuð með það í huga að nota orðið manneskja í staðinn fyrir maður.

Svo er annað, víða er talað um að með lögum eigi að gera eitthvað. Hér er sagt í 8. gr.: „Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn.“ Af hverju stendur ekki: Allir menn skulu lifa með reisn. Af hverju þarf að tryggja þetta einhvern veginn og þá væntanlega með lögum?

Í 17. gr. stendur t.d.: „Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.“ Af hverju stendur ekki bara: Vísindi, fræði og listir eru frjálsar. Þá er það undirstaða lagasetningarinnar, þingmenn sverja eið að stjórnarskránni og þeir eiga að búa til lög til að tryggja þetta.

Svo ætla ég að tala um draumsýnina. Menn hafa mikla tilhneigingu til að búa til fallegt þjóðfélag með orðum og halda þá að þeir geti farið heim til sín og allt sé komið í fínt lag. Ég ætla að lesa upp úr 23. gr.: „Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki …“ Frú forseti. Er það miðað við árangur bandarískra háskólasjúkrahúsa sem hæst ganga í því að viðhalda heilsu manna en kostar óhemju? Hvað þýðir þetta? Ég veit það ekki. Ég hefði viljað sleppa þessu „að hæsta marki“ og setja eitthvað mildara.

Svo er talað um skólaskyldu. Það eru heilmiklar deilur um hvort það eigi að vera skylda, hvort það eigi ekki frekar að vera menntunarskylda. Ég er ekki viss um að allir vilji hafa þarna skólaskyldu.

Svo kemur 25. gr. Þetta er alveg yndislegt: „Öllum skal tryggður réttur til sanngjarnra launa …“ Frú forseti. Mér finnst að sanngjörn laun mín séu a.m.k. milljón á mánuði, miðað við menntun, reynslu og allt það, og hvað ég er duglegur og hvað ég held margar ræður. Hver á að segja hvað eru sanngjörn laun? Nú er það svo í þjóðfélaginu, sem betur fer, að ríkið borgar ekki öll laun. Það eru nefnilega til einstaklingar sem reka fyrirtæki eða búa sjálfir sem eru að borga öðrum laun. Þetta er eiginlega krafa til þeirra að þeir eigi að borga eitthvað sem heitir sanngjörn laun.

Ég hef oft sagt þegar menn kvarta undan því að lægstu laun á Íslandi séu lág: Af hverju í ósköpunum stofnarðu ekki fyrirtæki og borgar há laun fyrst það er svona auðvelt? Ef það er svona auðvelt að hækka lægstu laun skaltu bara gera það, segi ég við viðkomandi, því að það er öllum frjálst að stofna fyrirtæki og borga há laun, ef þeir telja að það sé svona auðvelt. Svona ákvæði að öllum skuli tryggður réttur til sanngjarnra launa er bara út í hött því að það er krafa á eitthvert fólk að fara að borga hærri laun en það kannski getur, einhver fyrirtæki.

Síðan er sagt í 29. gr.: „Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.“ Mér finnst að 1. gr. eigi bara að hljóða svo: Engan mann má drepa. Þá felst líka í því herskylda. Ef engan má drepa má hermaður ekki heldur drepa og ef engan má drepa má ríkið heldur ekki drepa með dauðarefsingu. Það er eitthvað sem allir skilja, engan má drepa, enga manneskju má drepa. Við skulum orða það þannig.

Svo er það 33. gr. Óbyggð víðerni, það á að tryggja að þeim sé viðhaldið og að náttúruminjar og óbyggð víðerni njóti verndar. Hvað þýðir þetta eiginlega? Ef þetta hefði verið í gildi þegar Ísland var numið 870 hefði sennilega verið bannað að flytja inn fólk, landnámið hefði verið bannað ef þetta hefði staðið þá. Ísland var þá eitt stórt víðerni, óbyggt, og þetta ákvæði á að tryggja það. Þetta er komið í stjórnarskrá, það má ekki byggja neitt meira. Það má ekki reisa einhver hús inni á eyðimörkum landsins.

Ég er nú ekki búinn með nema lítið, frú forseti. Auðlindirnar, já, fyrir nokkrum árum voru vatnsföllin í sveitunum til bölvunar. Fyrir 100–200 árum voru vatnsföllin í sveitunum til bölvunar og sjávarútvegurinn var ekki auðlind því að hann drap fullt af ungum karlmönnum á Íslandi á hverju einasta ári.