Stöðugleiki í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 16:23:24 (629)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:23]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að leiðrétta þann misskilning sem hér var á sveimi, þá er ég að tala um hlutfall af tekjum einstaklinga, 60–70% einstaklinga eru að borga lægra hlutfall af tekjum sínum í dag en þeir gerðu fyrir hrun. Svoleiðis vinna jafnaðarmenn og á bak við þá stefnu vil ég standa og ég mundi gjarnan vilja fá Framsóknarflokkinn með í þá vegferð að styðja betur við þá sem lægstu launin hafa.

Ég skil upplegg Framsóknarflokksins þannig að þeir telji að með því að gefa eftir skatttekjur ríkissjóðs þá muni viðbragð efnahagslífsins og atvinnulífsins verða slíkt, að tekjurnar sem gefnar eru eftir muni koma inn með öðrum hætti. Er ekki með einhverjum hætti verið að leika sér með fjöreggið og hætta á að viðbragðið verði slíkt að sjálfbær rekstur ríkissjóðs sé settur í uppnám? Við jafnaðarmenn viljum nálgast verkefnið þannig að breyta vöxtum í velferð. Þess vegna teljum við mjög mikilvægt að leika sér ekki með fjöreggið (Forseti hringir.) og tryggja að ríkissjóður sé rekinn með sjálfbærum hætti.