Stöðugleiki í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 16:48:36 (638)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að nefna eitt atriði sem ég komst ekki yfir í fyrra andsvari úr ræðu hæstv. ráðherra. Það er varðandi gjaldmiðilinn og skuldsetningarhættuna sem fylgir því að vera með erlendan gjaldmiðil ef menn vilja flytja mikið fjármagn úr landi. Það leysa menn ekki með evrunni eins og við sjáum á stöðu Grikklands og Írlands nú. Úr þessum löndum er búinn að vera mikill fjármagnsflótti sem hefur einfaldlega þýtt að ríkin hafa þurft að skuldsetja sig meira og meira. Menn losna því ekkert við þann vanda þó að þeir gerist aðilar að Evrópusambandinu.

Varðandi kafla IV, ríkisfjármálin, og það að sú stefna og áherslan sem þar birtist á að ná jöfnuði í ríkisfjármálum sé hindrun hvað hitt varðar þá verðum við að hafa í huga það sem lögð er töluverð áhersla á þarna, og ég ætla að fara yfir í seinni ræðu, að menn skoði heildarmyndina og langtímaáhrifin til að mynda varðandi hugmyndina um skuldaleiðréttingu sem við ræddum svo mikið á árinu 2009 og ríkisstjórnin taldi þá að mundi leiða til verulegrar skuldsetningar ríkisins og kostnaðar fyrir ríkið. Sú varð einfaldlega ekki raunin. Þær aðferðir hefðu sparað ríkinu mikinn pening og aukið tekjur þess. Þetta sjá menn ekki nema þeir skoði áhrifin til langs tíma og heildaráhrifin. Það þýðir ekkert að bíða og bíða og ætla að hækka skatta aftur og aftur þangað til tekjurnar fara að aukast og ætla sér þá að lækka skatta vegna þess að meðan slík skattahækkunarstefna er rekin, eins og við höfum séð síðastliðin þrjú ár, aukast ekki tekjurnar. Þá lenda menn bara aftur í sömu stöðu á næsta ári, að hækka skattana aftur og vonast til að geta lækkað þá á næsta ári ef tekjurnar aukast, en þær aukast ekki vegna hækkananna.