Stöðugleiki í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 16:53:07 (640)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. ráðherra var um margt skynsamleg. Hann talaði af skynsemi um skuldavandann og hann talaði af skynsemi um gjaldmiðlavandann, þrátt fyrir að ég sé ekki alveg sammála honum. En það er bara eins og gengur, menn þurfa ekki alltaf að vera sammála. Síðan þegar kom að sköttunum fór hæstv. ráðherra, eins og oft gerist með vinstri menn í þeim málum, alveg út af sporinu og eiginlega bara út í skurð. Hann vitnaði í skattskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem hann sagði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði hrósað Íslendingum sérstaklega fyrir að taka upp þrepaskatt.

Það er nú ekki alveg sannleikanum samkvæmt, alla vega hefur hæstv. ráðherra þá misskilið eitthvað vegna þess að hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var sérstaklega tekið fram að eitt skattþrep t.d. í óbeinu sköttunum, virðisaukasköttunum, væri æskilegt. Ekki var talað um að hagkvæmni væri fólgin í því að setja upp þrepaskatt vegna þess að er algjör grundvallarregla að þrepaskattur virkar letjandi á efnahagsstarfsemi. Það er ekki bara mín skoðun og það er ekki bara skoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það er hin viðtekna skoðun innan skattahagfræðinnar.

Þess vegna langar mig til að heyra hæstv. ráðherra annað hvort draga til baka það sem hann sagði áður um að þeir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefðu sagt að hér hefði verið tekinn upp hagkvæmur skattur, eða þá að hæstv. ráðherra útskýri fyrir okkur hinum sem höfum aðeins gluggað í þessi mál hvernig það megi vera að þrepaskattur (Forseti hringir.) sé hagkvæmur skattur.