Stöðugleiki í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 17:10:46 (646)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[17:10]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi glaður geta komið með Framsóknarflokknum í það verkefni að lækka hér skatta og verið fullkomlega viss um að með því værum við að auka veltuna í hagkerfinu svo mikið að við fengjum inni fyrir þeirri skattalækkun. Í hjarta mínu er ég sammála þessari nálgun og óskandi væri að við gætum tekið þá áhættu. (Gripið fram í: Þarf ekki nema nýja ríkisstjórn.) Hins vegar óttast ég mikið þá áhættu vegna þess að mér finnst sjálfbærni í ríkisrekstri skipta mestu máli. Ég tel að við séum eilítið að leika okkur að eldinum, þá sérstaklega ef við erum ekki búin að reikna út hvað skattbreytingarnar kosta okkur — það skortir hér — og að við tökum um leið þá áhættu að þær breytingar komi til með að auka veltuna í hagkerfinu mikið. Það eru svo mörg utanaðkomandi atvik sem geta haft áhrif á veltuna í hagkerfinu, svo sem ástand á erlendum mörkuðum, staða fyrirtækja sem eru í útflutningi og þróun gengisins. Seðlabankinn telur núna til dæmis verðbólguþrýstinginn svo mikinn að vaxtahækkanir séu í nánd. Hvaða áhrif hefur þannig innspýting á þá þróun og hvaða áhrif hefur það svo á vöxt og viðgang fyrirtækjanna?

Ég mundi vilja nálgast verkefnið með þeim hætti að, já, við skoðuðum með hvaða hætti við gætum örvað atvinnulífið en látum reikna út hvað það kostar og verum viss um að við höfum fjármuni til að fara í einhverjar breytingar. Þannig mundi ég vilja nálgast verkefnið. En í hjarta mínu er ég sammála þeirri nálgun að ákjósanlegt væri að geta hjálpað atvinnulífinu með aðgerðum ríkisvaldsins.