Stöðugleiki í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 17:42:28 (651)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka prýðilega yfirferð hv. þingmanns og jafnframt þá miklu jákvæðni sem var áberandi í málflutningi hans. Hv. þingmaður kom aðeins inn á það sem ég hef lagt mikla áherslu á í þessari umræðu, tekjuaukninguna sem fylgir skattalækkun við þessar aðstæður, í ljósi reynslunnar eins og hv. þingmaður vísar til. Hér voru einnig til umræðu flækjurnar í skattkerfinu og áhrif þeirra. Hv. þingmaður benti réttilega á að skattamálin og þar af leiðandi tekjur fólks hljóta að vera óaðskiljanlegur hluti lausnar á skuldavandanum.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Getur hann ekki tekið undir það að skattkerfi sem virkar letjandi hvað varðar vinnu, þar sem menn hafa mjög litlar viðbótartekjur af því að bæta við sig vinnu, sé mjög skaðleg þegar menn þurfa að fá tækifæri til að vinna sig út úr skuldavanda?

Ég nefni þetta vegna þess að hv. þm. Magnús Orri Schram og raunar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lögðu áherslu á að verja þrepaskipta skattkerfið. Við höfum hins vegar séð að þessir jaðarskattar og hin gríðarlega miklu áhrif þeirra valda því að það að bæta við sig vinnu til að auka tekjurnar skilar mönnum mjög litlu þegar til kastanna kemur. Má með öðrum orðum halda því fram að þessi (Forseti hringir.) þrepaskipting og flækjurnar takmarki möguleika fólks á því að vinna sig út úr skuldavanda?